Hagkvæmt húsnæði kynnt á fundi

Framkvæmdir Skipulagsmál

""

Reykjavíkurborg stendur fyrir opnum fundi í Ráðhúsi Reykjavíkur, föstudaginn 2. nóvember kl. 8:30 þar sem kynntar verða frumhugmyndir að hagkvæmum íbúðum fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur en allt að 500 slíkar íbúðir verða byggðar á næstu árum.

Reykjavíkurborg auglýsti fyrr á þessu ári ári eftir hugmyndum að samstarfsaðilum til að þróa og hanna hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur á ákveðnum lóðum í borginni. Frestur til að skila hugmyndum var til 8. ágúst sl. Borgin útvegar lóðir þar sem byggðar verða allt að 500 hagkvæmar íbúðir samkvæmt hugmyndum samstarfsaðilanna en fjölmargar tillögur voru sendar inn.

Lóðum verður úthlutað á föstu verði, sem er kr. 45.000 á hvern fermetra ofanjarðar auk gatnagerðargjalda, nema annars sé sérstaklega getið. 

Reitirnir sem um ræðir eru í Úlfarsárdal, á Kjalarnesi, í Gufunesi, í Bryggjuhverfi við Elliðaárvog, við Sjómannaskólann, á Veðurstofureit og í Skerjafirði. Deiliskipulag þessara svæða er mislangt á veg komið.

Eftir að matsnefnd skipuð af Reykjavíkurborg fór yfir innsendar tillögur hefur Reykjavíkurborg valið samstarfsaðila til að hanna og byggja hagkvæmt húsnæði á reitunum samkvæmt ákveðnum gefnum forsendum.

Á fundinum sem haldinn verður í Ráðhúsi Reykjavíkur, föstudaginn 2. nóvember, mun Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fara yfir verkefnið en síðan munu samstarfsaðilar borgarinnar fara yfir frumhugmyndir sínar að hagkvæmu húsnæði fyrir ungt fólk sem byggt verður á áðurnefndum reitum.

Lögð er rík áhersla á að framkvæmdir hefjist eins fljótt og kostur er og gangi hratt fyrir sig. 

Fundurinn hefst klukkan 9 með erindi Dags B. Eggertssonar borgarstjóra en húsið opnar 8:30 og er boðið upp á léttan morgunverð. Streymi frá fundinum verður hér á vefsíðunni og á facebook síðu Reykjavíkurborgar.