Hagaskóli sigurvegari Skrekks

Skóli og frístund

Siguratriði Hagaskóla á sviðinu í Skrekk 2023.

Hagaskóli sigraði Skrekk, hæfileikakeppni grunnskóla í Reykjavík í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi. Háteigsskóli var í öðru sæti og Seljaskóli í því þriðja.

Mikilvægt að líta upp úr snjalltækjunum

Hagaskóli sigraði í ár með atriðið Líttu upp, taktu eftir og fjallar um mikilvægi þess að líta upp úr snjalltækjunum og njóta lífsins. Í öðru sæti var Háteigsskóli með atriðið Fjörutíu sekúndur og í þriðja sæti var Seljaskóli skóli með atriðið Fer þetta svona?.

Mörg áhrifamikil umfjöllunarefni

Í ár tóku 24 skólar og 700 unglingar þátt í undanúrslitum. Átta skólar komust áfram í úrslitin. Atriðin að þessu sinni fjalla um umhverfismál, áhrif síma og samfélagsmiðla og mikilvægi þess að sjá veröldina þar fyrir utan, kvíða og geðheilbrigði, gerendameðvirkni, sýnileika minnihlutahópa, vináttu og hraðtísku svo að eitthvað sé nefnt. Unglingarnir nýta all­ar sviðslist­ir í atriðin; tónlist, dans, leik­list og gjörn­inga. Unglingarnir semja atriðin og nýta allar sviðslistir í þau auk þess sem þau sjá um  búninga, förðun, hár, ljós og hljóð.

Langholtsskóli fékk Skrekkstunguverðlaunin

Langholtsskóli hlaut Skrekkstunguverðlaunin fyrir atriðið Gerandinn er þinn besti vin. Verðlaunin eru veitt fyrir það atriði sem þykir skara fram úr í skapandi notkun á íslensku. Markmið verðlaunanna er að styðja við jákvæð viðhorf gagnvart íslensku og beina athygli sviðslistafólks framtíðarinnar að möguleikum íslensku í skapandi starfi.

Skrekkur er risastórt samstarfsverkefni grunnskóla og félagsmiðstöðva Reykjavíkur, og RÚV.