Hagaskóli sigurvegari í Skrekk 2024 og Ölduselsskóli hlaut Skrekkstunguna
Skóli og frístund
Úrslitakvöld Skrekks, hæfileikakeppni skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur fór fram í gær, 11. nóvember, í Borgarleikhúsinu.
Hagaskóli sigraði með atriðið Stingum af sem fjallaði um loftlagsvá og flóttamenn. Í öðru sæti var Laugalækjarskóli með atriðið Kæra dagbók sem fjallar um mismunandi æviskeið og hringrás lífsins og í þriðja sæti var Réttarholtsskóli með atriðið Einbeittur brotavilji sem fjallar um skróp í tímum.
Í ár tóku 25 skólar þátt í Skrekk og 721 unglingur þátt í undanúrslitum. Átta skólar komust áfram í úrslitin.
Atriðin í ár fjölluðu meðal annars um gervigreind, flóttafólk, neyslu, stríð, her, ást, vináttu, jólin, núið, tilfinningar, réttindi og símalíf.
Unglingarnir semja atriðin og nýta allar sviðslistir í þau auk þess sem þau sjá um búninga, sviðsmynd, förðun, hár, ljós og hljóð.
Skólarnir sem kepptu til úrslita voru Árbæjarskóli, Breiðholtsskóli, Fellaskóli, Hagaskóli, Laugalækjarskóli, Réttarholtsskóli, Seljaskóli og Ölduselsskóli.
Ölduselsskóli hlaut Skrekkstunguna í ár
Ölduselsskóli hlaut Skrekkstunguverðlaunin fyrir atriðið Skólastofan.
Verðlaunin eru veitt fyrir það atriði sem þykir skara fram úr í skapandi notkun á íslensku. Markmið verðlaunanna er að styðja við jákvæð viðhorf gagnvart íslensku og beina athygli sviðslistafólks framtíðarinnar að möguleikum íslensku í skapandi starfi.
Skrekkstunguverðlaunin voru nú veitt þriðja árið í röð fyrir góða íslensku. Aðstandendur keppninnar fannst íslenskan vera á undanhaldi og vildu snúa þróuninni við.
Verðlaunin hafa haft áhrif frá því að ganga þeirra hófst og segir Eiríkur Rögnvaldsson sem er formaður dómnefndar að algjör bylting hafi orðið í ár hvað notkun íslensku í atriðunum varðar. Í langflestum atriðum hafi allur texti verið talaður, sunginn og ritaður á íslensku.
Skrekkur er risastórt samstarfsverkefni grunnskóla og félagsmiðstöðva Reykjavíkur, Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur, RÚV og Borgarleikhússins.