Úthlutun styrkja og samstarfssamninga menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs á sviði menningarmála og útnefning Listhóps Reykjavíkur 2024 fór fram í Iðnó í dag fimmtudaginn 25. janúar. Formaður ráðsins, Skúli Helgason, gerði grein fyrir úthlutuninni.
Alls bárust 187 umsóknir um styrki úr borgarsjóði á sviði menningarmála síðastliðið haust, þar sem sótt var um styrki fyrir alls rúmlega 317 milljónir króna.
Ráðstöfunarfé til úthlutunar styrkja á sviði menningarmála fyrir árið 2024 hækkaði um 15.000.000 kr. frá því í fyrra, auk þess sem 8 milljónir króna sem áður voru eyrnamerktar úrbótasjóði tónleikastaða runnu aftur inn í sjóðinn. Heildarfjárhæð til ráðstöfunar til almennra styrkja og samstarfsamninga hækkaði því úr 75.9 milljónum króna í 98.9 milljónir milli ára.
Skúli Þór Helgason, formaður menningar- íþrótta- og tómstundaráðs segir úthlutun menningarstyrkjanna í ár vera sérstakt fagnaðarefni því náðst hafi samstaða í borgarstjórn um hækkun styrkjanna í fyrsta sinn í 5 ár. „Það gerir okkur kleift að fjölga styrkjum og hækka fjárhæðir sem var forgangsmál hjá okkur því almennu menningarstyrkirnir eru mikilvæg vítamínsprauta sem styðja við fjölbreyttara lista- og menningarlíf í Reykjavík. Styrkirnir skipta verulegu máli fyrir sjálfstætt starfandi listafólk í borginni og eru, hvernig sem á það er litið, gríðarlega mikilvæg forsenda grósku og nýsköpunar í menningarlífi borgarinnar“.
Alls hljóta 88 verkefni á sviði lista og menningar styrk eða nýjan samstarfssamning árið 2024 fyrir samtals 80.4 milljónir króna, en fyrir eru 18.5 milljónir króna bundnar í gildandi samstarfssamningum við Sequences myndlistarhátíð, Lókal leiklistarhátíð, Myrka músíkdaga, Reykjavík Ensemble, Myndhöggvarafélagið í Reykjavík, Stórsveit Reykjavíkur og Mengi. Hækkun á styrkjapotti fyrir árið 2024 skilar sér því í að fleiri verkefni hljóta styrkveitingu en í fyrra, en einnig voru styrkupphæðir almennt hækkaðar þannig að auðveldara var að koma til móts við umbeðnar upphæðir metnaðarfullra verkefna.
Gerðir verða sex nýir samstarfssamningar við hátíðir og listhópa með föstu framlagi til ýmist tveggja eða þriggja ára. Þannig hlýtur Alþjóðleg bókmenntahátíð í Reykjavík 4 milljónir króna, Jazzhátíð Reykjavíkur 3 milljónir króna og starfsemi Hringleiks - sirkuslistafélags 2 milljónir króna árlega til þriggja ára, og listahátíðirnar List án landamæra og RVK Fringe Festival auk kammerhópsins Nordic Affect 2 milljónir árlega til tveggja ára.
Listhópur Reykjavíkur 2024 er Sviðslistahópurinn Óður og hlýtur hópurinn 2.5 milljónir króna í styrk. Markmið Óðs hefur frá upphafi verið að færa út kvíar óperunnar á Íslandi og stuðla að fjölbreyttara vistkerfi óperulistar á Íslandi. Sýningar hópsins hafa hlotið einróma lof gagnrýnenda úr bæði tónlistar- og leikhúsgeiranum, Óperan Póst-Jón er næsta sýning Óðs en allar sýningar hópsins eru á íslensku.
Hæstu árlegu styrki árið 2024 hljóta Caput-hópurinn og Kammersveit Reykjavíkur með 2.5 milljónir króna, UNGI - EGGIÐ 2024 - Alþjóðleg sviðslistasamtök fyrir unga áhorfendur og Listvinafélag Reykjavíkur hljóta 2 milljónir króna og Design Talks 1.5 milljónir króna.
Aðrar styrkúthlutanir á árinu 2024 eru frá 200.000 kr. og upp í 1.2 milljónir króna.
Líkt og áður var faghópi, skipuðum fjórum fulltrúum tilnefndum af Bandalagi íslenskra listamanna og einum tilnefndum af Hönnunarmiðstöð Íslands, falið að fara yfir innkomnar styrkumsóknir á sviði menningarmála fyrir árið 2024 og leggja fram tillögu að úthlutun fyrir menningar-, íþrótta- og tómstundaráð. Tillaga faghóps um styrki til menningarmála
Reykjavíkurborg rekur þrjár sjálfstæðar menningarstofnanir, Borgarbókasafn, Listasafn Reykjavíkur og Borgarsögusafn Reykjavíkur. Hæstu framlög Reykjavíkurborgar til menningarmála í borginni fara til Leikfélags Reykjavíkur í Borgarleikhúsi, Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss. Jafnframt njóta ýmsir sjálfstæðir aðilar húsnæðis- og/eða rekstrarstyrkja frá Reykjavíkurborg á borð við Listahátíð í Reykjavík, Stockfish, Tjarnarbíó, Dansverkstæðið, Bíó Paradís, Nýlistasafnið og Kling og bang og voru samningar við fimm síðastgreindu aðilana hækkaðir í lok síðasta árs um 18 milljónir króna í heildina.