Hækkun styrkja á sviði menningarmála árið 2024

Menning og listir

Listahópur Reykjavíkur 2024 er Sviðslistahópurinn Óður
Listahópur Reykjavíkur 2024 er Sviðslistahópurinn Óður

Úthlutun styrkja og samstarfssamninga menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs á sviði menningarmála og útnefning Listhóps Reykjavíkur 2024 fór fram í Iðnó í dag fimmtudaginn 25. janúar. Formaður ráðsins, Skúli Helgason, gerði grein fyrir úthlutuninni.

Alls bárust 187 umsóknir um styrki úr borgarsjóði á sviði menningarmála síðastliðið haust, þar sem sótt var um styrki fyrir alls rúmlega 317 milljónir króna. 

Ráðstöfunarfé til úthlutunar styrkja á sviði menningarmála fyrir árið 2024 hækkaði um 15.000.000 kr. frá því í fyrra, auk þess sem 8 milljónir króna sem áður voru eyrnamerktar úrbótasjóði tónleikastaða runnu aftur inn í sjóðinn. Heildarfjárhæð til ráðstöfunar til almennra styrkja og samstarfsamninga hækkaði því úr 75.9 milljónum króna í 98.9 milljónir milli ára.

Skúli Þór Helgason, formaður menningar- íþrótta- og tómstundaráðs segir úthlutun menningarstyrkjanna í ár vera sérstakt fagnaðarefni því náðst hafi samstaða í borgarstjórn um hækkun styrkjanna í fyrsta sinn í 5 ár. „Það gerir okkur kleift að fjölga styrkjum og hækka fjárhæðir sem var forgangsmál hjá okkur því almennu menningarstyrkirnir eru mikilvæg vítamínsprauta sem styðja við fjölbreyttara lista- og menningarlíf í Reykjavík. Styrkirnir skipta verulegu máli fyrir sjálfstætt starfandi listafólk í borginni og eru, hvernig sem á það er litið, gríðarlega mikilvæg forsenda grósku og nýsköpunar í menningarlífi borgarinnar“.

Alls hljóta 88 verkefni á sviði lista og menningar styrk eða nýjan samstarfssamning árið 2024 fyrir samtals 80.4 milljónir króna, en fyrir eru 18.5 milljónir króna bundnar í gildandi samstarfssamningum við Sequences myndlistarhátíð, Lókal leiklistarhátíð, Myrka músíkdaga, Reykjavík Ensemble, Myndhöggvarafélagið í Reykjavík, Stórsveit Reykjavíkur og Mengi. Hækkun á styrkjapotti fyrir árið 2024 skilar sér því í að fleiri verkefni hljóta styrkveitingu en í fyrra, en einnig voru styrkupphæðir almennt hækkaðar þannig að auðveldara var að koma til móts við umbeðnar upphæðir metnaðarfullra verkefna.

 

Fjöldi fólks samankominn í Iðnó við styrkveitingu á sviði menningarmála
Fjöldi fólks var samankominn í Iðnó við afhendingu styrkja til menningarmála árið 2024

 

Gerðir verða sex nýir samstarfssamningar við hátíðir og listhópa með föstu framlagi til ýmist tveggja eða þriggja ára. Þannig hlýtur Alþjóðleg bókmenntahátíð í Reykjavík 4 milljónir króna, Jazzhátíð Reykjavíkur 3 milljónir króna og starfsemi Hringleiks - sirkuslistafélags 2 milljónir króna árlega til þriggja ára, og listahátíðirnar List án landamæra og RVK Fringe Festival auk kammerhópsins Nordic Affect 2 milljónir árlega til tveggja ára.

Listhópur Reykjavíkur 2024 er Sviðslistahópurinn Óður og hlýtur hópurinn 2.5 milljónir króna í styrk. Markmið Óðs hefur frá upphafi verið að færa út kvíar óperunnar á Íslandi og stuðla að fjölbreyttara vistkerfi óperulistar á Íslandi. Sýningar hópsins hafa hlotið einróma lof gagnrýnenda úr bæði tónlistar- og leikhúsgeiranum, Óperan Póst-Jón er næsta sýning Óðs en allar sýningar hópsins eru á íslensku.

Hæstu árlegu styrki árið 2024 hljóta Caput-hópurinn og Kammersveit Reykjavíkur með 2.5 milljónir króna, UNGI - EGGIÐ 2024 - Alþjóðleg sviðslistasamtök fyrir unga áhorfendur og Listvinafélag Reykjavíkur hljóta 2 milljónir króna og Design Talks 1.5 milljónir króna. 

Aðrar styrkúthlutanir á árinu 2024 eru frá 200.000 kr. og upp í 1.2 milljónir króna.

Líkt og áður var faghópi, skipuðum fjórum fulltrúum tilnefndum af Bandalagi íslenskra listamanna og einum tilnefndum af Hönnunarmiðstöð Íslands, falið að fara yfir innkomnar styrkumsóknir á sviði menningarmála fyrir árið 2024 og leggja fram tillögu að úthlutun fyrir menningar-, íþrótta- og tómstundaráð. Tillaga faghóps um styrki til menningarmála

Reykjavíkurborg rekur þrjár sjálfstæðar menningarstofnanir, Borgarbókasafn, Listasafn Reykjavíkur og Borgarsögusafn Reykjavíkur. Hæstu framlög Reykjavíkurborgar til menningarmála í borginni fara til Leikfélags Reykjavíkur í Borgarleikhúsi, Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss. Jafnframt njóta ýmsir sjálfstæðir aðilar húsnæðis- og/eða rekstrarstyrkja frá Reykjavíkurborg á borð við Listahátíð í Reykjavík, Stockfish, Tjarnarbíó, Dansverkstæðið, Bíó Paradís, Nýlistasafnið og Kling og bang og voru samningar við fimm síðastgreindu aðilana hækkaðir í lok síðasta árs um 18 milljónir króna í heildina.