Hækkun á styrk svifryks við umferðargötur

föstudagur, 17. mars 2017

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist náið með loftgæðum í borginni og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til. Svifryk er fremur hátt í dag.

  • ""

Styrkur svifryks (PM10) er í dag, 17. mars, hár við helstu umferðargötur skv. mælingum í fastri mælistöð við Grensásveg og í færanlegum mælistöðvum við Eiríksgötu og Rofabæ. Hægur vindur er ríkjandi og götur þurrar, ryk þyrlast því auðveldlega upp.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands bætir í vind og von er á úrkomu í síðdegis og þá mun draga úr mengun. Klukkan 12:30 var hálftímagildi svifryks við mælistöðina á Grensásvegi 111, 40 míkrógrömm á rúmmetra en sólarhringsheilsuverndarmörkin eru 50 míkrógrömm á rúmmetra. Haldist veður óbreytt er hætta á að svifryk fari yfir þau mörk.

Bent skal á að svifryksmengun er mest í nágrenni við miklar umferðargötur en minni mengun er inn í íbúðarhverfum fjær umferð. Búast má við toppum í svifryksmengun, á dögum sem þessum, á umferðarálagstímum á morgnanna, í hádeginu og í eftirmiðdaginn.

Hægt er að fylgjast með styrk svifryks á www.reykjavik.is/loftgaedi en þar má sjá kort yfir mælistaði í Reykjavík m.a. mælistöð á Grensásvegi.

Frekari upplýsingar veitir Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur í síma 411 1111.