Hækkun á styrk svifryks og köfnunarefnisdíoxíðs við umferðargötur | Reykjavíkurborg

Hækkun á styrk svifryks og köfnunarefnisdíoxíðs við umferðargötur

mánudagur, 12. mars 2018

Styrkur svifryks (PM10) hefur verið hár það sem af er degi,12. mars samkvæmt mælingum í mælistöðvum við Grensásveg, Hringbraut og Eiríksgötu. Þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum og börn ættu að forðast útivist  í nágrenni stórra umferðagatna.

  • Loftgæði geta verið slæm í borginni þegar kalt og þurrt er í veðri.
    Loftgæði geta verið slæm í borginni þegar kalt og þurrt er í veðri.

Sólarhringsheilsuverndarmörkin fyrir svifryk eru 50 míkrógrömm á rúmmetra og fyrir köfnunarefnisdíoxíð eru mörkin 75 míkrógrömm á rúmmetra.

Klukkan tíu í morgun var hálftímagildi svifryks við Grensásveg 173 míkrógrömm á rúmmetra. Í mælistöð við Hringbraut var hálftímagildið á sama tíma 242 míkrógrömm á rúmmetra og við Eiríksgötu 64 míkrógrömm á rúmmetra. Köfnunarefnisdíoxíð hefur einnig mælst nokkuð hátt í sömu stöðvum. Nú er hægur vindur, götur þurrar og litlar líkur á úrkomu fyrr en miðvikudag.

Heilbrigðiseftirlitið hvetur almenning til þess að draga úr notkun einkabílsins við þessar aðstæður, nýta sér frekar almenningssamgöngur, sameinast í bíla eða nota aðra vistvæna samgöngumáta.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist náið með loftgæðum borgarinnar og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til. Hægt er að fylgjast með styrk svifryks og annarra mengandi efna á http://reykjavik.is/thjonusta/loftgaedi-i-reykjavik. Þar má sjá kort yfir mælistaði í Reykjavík. Loftgæðafarstöðvar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur eru nú staðsettar við leikskólann Grænuborg við Eiríksgötu og við Hringbraut 26.