Hækkun á styrk svifryks og köfnunarefnisdíoxíðs

Hverfisskipulag

""

Styrkur svifryks (PM10) og köfnunarefnisdíoxíðs (NO2) er hár í borginni í dag, 13. nóvember skv. mælingum í mælistöðvunum við Grensásveg og Njörvasund.

Klukkan 13:00 var klukkutímagildi svifryks við Grensásveg 98 míkrógrömm á rúmmetra og klukkutímagildi köfnunarefnisdíoxíðs 86,2 míkrógrömm á rúmmetra. Í mælistöð við Njörvasund/Sæbraut var klukkutímagildi svifryks á sama tíma 84,5 míkrógrömm á rúmmetra og klukkutímagildi köfnunarefnisdíoxíðs 86,2 míkrógrömm á rúmmetra.

Sólarhringsheilsuverndarmörkin fyrir köfnunarefnisdíoxíð eru 75 míkrógrömm á rúmmetra og fyrir svifryk PM10 50 míkrógrömm á rúmmetra. 

Nú er hæg­ur vind­ur og göt­ur þurr­ar og er búist við svipuðum veðurfarsaðstæðum á morgun og því lík­ur á svifryks- og köfn­un­ar­efn­is­díoxíðmeng­un við um­ferðargöt­ur.

Almenningur er hvattur til þess að draga úr notkun einkabílsins við þessar aðstæður, nýta sér frekar almenningssamgöngur, sameinast í bíla eða nota aðra vistvæna samgöngumáta. Þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum, og börn ættu að forðast útivist í lengri tíma og takmarka áreynslu í nágrenni stórra umferðagatna.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist náið með loftgæðum borgarinnar og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til. Hægt er að fylgjast með styrk svifryks og annarra mengandi efna á loftgæði.is. Þar má sjá kort yfir mælistaði í Reykjavík og annars staðar á landinu. Loftgæðafarstöðvar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur eru nú staðsettar við gatnamótin Fossaleynir/Víkurvegur og hin við Njörvasund 27.