Hækkun á styrk köfnunarefnisdíoxíðs og svifryks í dag og í fyrramálið

Umhverfi Heilbrigðiseftirlit

""

Styrkur köfnunarefnisdíoxíðs (NO2) og svifryks (PM10) var nokkuð hár í borginni í morgun, 6. apríl skv. mælingum í mælistöðvunum við Grensásveg og Bústaðaveg/Háaleitisbraut og verður það líklega aftur síðdegis og í fyrramálið. Borgarbúar eru hvattir til að skilja bílinn eftir heima á morgun og nýta aðra fararmáta til og frá vinnu.

Klukkan 10 í morgun var styrkur svifryks á Grensásvegi 102 míkrógrömm á rúmmetra og köfnunarefnisdíoxíðs 28 míkrógrömm á rúmmetra. Í mælistöðinni í Bústaðaveg/Háaleitisbraut var styrkur svifryks 104 míkrógrömm á rúmmetra og köfnunarefnisdíoxíðs 14 míkrógrömm á rúmmetra. Sólarhringsheilsuverndarmörkin fyrir svifryk PM10 50 míkrógrömm á rúmmetra og fyrir köfnunarefnisdíoxíð eru 75 míkrógrömm á rúmmetra

Köfnunarefnisdíoxíðmengun kemur frá útblæstri bifreiða og er mest á morgnanna og í eftirmiðdaginn þegar umferð er mest. Köfnunarefnisdíoxíð veldur ertingu í lungum og öndurvegi. Uppspretta svifryks er uppspænt malbik, jarðvegsagnir, salt og sót úr útblæstri bifreiða.

Gott að hvíla bílinn í fyrramálið

Mars og apríl hafa oft reynst erfiðir hvað svifryksmengun varðar á Höfuðborgarsvæðinu. Nú er hæg­ur vind­ur og göt­ur þurr­ar, ráðgert var að þrífa götur í dag en það frestast sökum frostakafla sem nú stendur yfir. Búist er við svipuðum veðurfarsaðstæðum áfram og því lík­ur á svifryks- og köfn­un­ar­efn­is­díoxíðmeng­un einkum við um­ferðargöt­ur núna seinni partinn og í fyrramálið. Æskilegt er að sem flestir hvíli bílinn í fyrramálið og fari með öðru móti til og frá vinnu. Þannig geta þau sem eru viðkvæm í öndunarfærum og börn notið útivistar betur. 

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist náið með loftgæðum borgarinnar og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til. Hægt er að fylgjast með styrk svifryks og annarra mengandi efna á loftgæði.is. Þar má sjá kort yfir mælistaði í Reykjavík og annars staðar á landinu. Loftgæðafarstöðvar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur eru nú staðsettar við gatnamótin Bústaðavegur/Háaleitisbraut og hin við Vesturbæjarsundlaug.