Hækkun á styrk köfnunarefnisdíoxíðs í borginni

Heilbrigðiseftirlit Umhverfi

Líkur eru á köfnunarefnisdíoxíðmengun, einkum við umferðargötur, núna seinni partinn. Arctic Images/Ragnar Th.
Stórar umferðargötur í Reykjavík

Styrkur köfnunarefnisdíoxíðs (NO2) var nokkuð hár í borginni í morgun, 3. febrúar, samkvæmt mælingum í mælistöðvunum við Grensásveg, Laugarnes og Bústaðaveg/Háaleitisbraut.  Klukkan 11 var styrkur köfnunarefnisdíoxíðs á Grensásvegi 175,5 míkrógrömm á rúmmetra. 

Köfnunarefnisdíoxíðmengun kemur frá útblæstri bifreiða og er mest á morgnana og í eftirmiðdaginn þegar umferð er mest. Köfnunarefnisdíoxíð veldur ertingu í lungum og öndunarvegi.   

Sólarhringsheilsuverndarmörkin fyrir köfnunarefnisdíoxíð eru 75 míkrógrömm á rúmmetra og klukkustundarmörkin eru 200 míkrógrömm á rúmmetra.   

Hvílum bílinn

Nú er hægur vindur og kalt og búist er við svipuðum veðurfarsaðstæðum fram undir kvöld. Líkur eru á köfnunarefnisdíoxíðmengun einkum við umferðargötur núna seinni partinn. Heilbrigðiseftirlitið hvetur því fólk til að hvíla bílinn, nýta sér umhverfisvænni ferðamáta, eins og almenningssamgöngur, göngur og hjólreiðar og forðast óþarfa ferðir. Þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum, og börn ættu að forðast útivist í lengri tíma og takmarka áreynslu í nágrenni stórra umferðagatna. 

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist náið með loftgæðum borgarinnar og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til. Hægt er að fylgjast með styrk svifryks og annarra mengandi efna á loftgæði.is. Þar má sjá kort yfir mælistaði í Reykjavík og annars staðar á landinu.

Loftgæðafarstöðvar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur eru nú staðsettar við gatnamótin Bústaðavegur/Háaleitisbraut og hin við Vesturbæjarlaug.