Hækkun á styrk köfnunarefnisdíoxíðs í borginni

Heilbrigðiseftirlit

""

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur gefið út varúðarleiðbeiningar vegna köfnunarefnisdíoxíðmengunar við miklar umferðargötur í borginni.

Styrkur köfnunarefnisdíoxíðs (NO2) er hár í borginni í dag, 28. október, samkvæmt mælingum í mælistöðinni við Grensásveg.  Köfnunarefnisdíoxíðmengun kemur frá útblæstri bifreiða og er mest á morgnanna og í eftirmiðdaginn þegar umferð er mest. Gert er ráð fyrir áframhaldandi hægviðri í dag og umtalsverðar líkur á því að styrkur köfnunarefnisdíoxíðs fari yfir sólarhringsheilsuverndarmörk við Grensásveg.  Sólarhringsheilsuverndarmörkin fyrir köfnunarefnisdíoxíð eru 75 míkrógrömm á rúmmetra.  Farið var yfir sólarhringsheilsuverndarmörkin við Grensásveg í gær eða 76 míkrógrömm á rúmmetra.

Köfnunarefnisdíoxíð veldur ertingu í lungum og öndunarvegi.  Þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum, og börn ættu að forðast útivist í lengri tíma og takmarka áreynslu í nágrenni stórra umferðargatna.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist náið með loftgæðum í borginni og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til. Hægt er að fylgjast með styrk köfnunarefnisdíoxíðs og annarra mengandi efna á loftgæði.is en þar má sjá kort yfir meðal annars mælistaði í Reykjavík. Önnur loftgæðafarstöð Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er nú staðsett í nágrenni Egilshallar við gatnamótin Fossaleynir/Víkurvegur. Hin farstöðin er við Njörvasund.