Guðmunduverðlaunin 2024 - Una Björg Magnúsdóttir myndlistarkona

Guðmunduverðlaunin 2024 f.v. Einar Þorsteinsson borgarstjóri, Una Björg Magnúsdóttir myndlistarkona og Ólöf Kristín Sigurðardóttir safnstjóri Listasafns Reykjavíkur.
Guðmunduverðlaunin 2024 f.v. Einar Þorsteinsson borgarstjóri, Una Björg Magnúsdóttir myndlistarkona og Ólöf Kristín Sigurðardóttir safnstjóri Listasafns Reykjavíkur.

Við opnun nýrrar Erró sýningar, 1001 nótt í Listasafni Reykjavíkur Hafnarhúsi í dag var úthlutað úr Listasjóði Guðmundu S. Kristinsdóttur.Styrkveitingin fór fram við hátíðlega afhöfn þegar safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, Ólöf Kristín Sigurðardóttir bauð gesti velkomna. Borgarstjórinn í Reykjavík, Einar Þorsteinsson afhenti styrkinn sem nú var veittur í 24. sinn.  

Una Björg er fædd árið 1990 – Hún útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2014 og lauk síðan MA gráðu í myndlist í Sviss árið 2018. Hún býr nú og starfar að myndlist sinni í Reykjavík. Una hefur verið ötul í sýningahaldi bæði hér heima og erlendis og hlaut til dæmis 2023 eftirsóttan styrk til eins árs vinnustofudvalar í Kunslerhaus Betanine í Berlín. Una hefur sýnt víðsvegar, til að mynda í KEIV í Aþenu, GES-2 í Moskvu, Nordatlantens bryggju í Danmörku, Listasafni Reykjavíkur og Y galleríi auk þess sem hún var sérstakur gestur Listasafns ASÍ. Una Björg hlaut hvatningaverðlaun Íslensku myndlistarverðlaunanna árið 2021 fyrir sýninguna Mannfjöldi hverfur sporlaust um stund í  D-sal Listasafns Reykjavíkur. Sýningin var gott dæmi um listsköpun Unu þar sem hún gerir hið ómögulega mögulegt og töfrar og blekking tæla áhorfandann á ókunnar slóðir enda sótti hún titilinn til sjónhverfingamannsins David Copperfield. Hið ofurkunnuglega birtist oft í verkum hennar, gjarnan sem skúlptúrískar sviðsmyndir sem líkja eftir raunveruleikanum með augljósu gervi. Þannig endurgerir hún fábrotinn hverdagsleikann með óvæntum munum, hljóðum, myndum eða ilm.

Styrkur úr Listasjóði Guðmundu S. Kristinsdóttur er veittur framúrskarandi listakonu og er honum ætlað að vera hvatning til frekari dáða á sviði myndlistar. Erró stofnaði sjóðinn árið 1997 til minningar um móðursystur sína og mikinn stuðningsmann, Guðmundu S. Kristinsdóttur frá Miðengi. Með því vildi hann leggja sitt af mörkum til framþróunar íslenskrar myndlistar.

Stjórn sjóðsins skipa safnstjóra Listasafnsins á Akureyri, Listasafns Íslands og Listasafns Reykjavíkur sem veitir stjórninni formennsku. Ekki er sótt um þennan styrk heldur er það hlutverk stjórnar að velja framúrskarandi listakonu sem þau telja á réttum stað á ferli sínum til að taka við viðurkenningu og peningaverðlaunum upp á 1 milljón króna.

Frá árinu 1997 er það afar öflugur hópur listkvenna sem fengið hefur viðurkenninguna.