Grófarhús fær nýtt líf

Framkvæmdir

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri veitti verðlaunin við hátíðlega athöfn í Grófarhúsi í dag. Ljósmyndir/Róbert Reynisson
Fólk við verðlaunaafhendingu.

Teymi frá JVST arkitektum, Inside Outside, Hanrath Architect, Kreatíva teiknistofu, VSÓ ráðgjöf og Örugg verkfræðistofu varð hlutskarpast  í hönnunarsamkeppni Reykjavíkurborgar og Arkitektafélags Íslands um breytingar og endurbætur á Grófarhúsi. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tilkynnti úrslitin við hátíðlega athöfn í Grófarhúsi í dag.

Fimm teymi komust í gegnum forval og voru tvær tillögur sérstaklega nefndar í dag. Niðurstaða dómnefndar var sú að  meirihluti dómnefndarfulltrúa greiddu fyrrnefndri tillögu atkvæði sitt í 1. sæti samkeppninnar. Einn dómnefndarfulltrúi skilaði séráliti en hann gaf engri tillögu atkvæði í fyrsta sæti og valdi vinningstillöguna í 2. sæti.

Til viðbótar var dómnefnd sammála um að útnefna tillögu frá Nordic Office of Architecture, Þykjó, Gagarín og Eflu sem áhugaverða tillögu.

Pálína Magnúsdóttir borgarbókavörður flutti enn fremur ávarp en eftir stækkun fær Borgarbókasafnið allt húsið til afnota. Fulltrúi dómnefndar, Halldór Eiríksson, arkitekt frá Tark, gerði grein fyrir niðurstöðum dómnefndar.

Lifandi samfélags- og menningarhús

„Hugmyndin er að bókasafnið fái allt húsið til afnota og markmiðið með breytingum og endurbótum á þessu húsnæði er að uppfylla sem best þær kröfur sem gerðar eru til nútíma bókasafna sem hýsa fjölbreytta þjónustu og dagskrá fyrir íbúa og aðra. Við viljum að Grófarhús fái nýtt líf sem opin og skemmtileg bygging, lifandi samfélags- og menningarhús í takt við vel heppnuð dæmi hjá nágranna- og vinaþjóðum okkar,“ sagði borgarstjóri.

„Áhersla var lögð á raunhæfa en jafnframt spennandi tillögu sem myndi sóma sér vel í lifandi og fallegu umhverfi miðbæjarins. Þá var gerð krafa um að umhverfissjónarmið, sjálfbærni og vistvæn hönnun væru höfð að leiðarljósi við hönnun og efnisval,“ sagði hann einnig.

Dómnefnd þakkar í dómnefndaráliti öllum þátttakendum fyrir heildstæð, ítarleg og metnaðarfull skil. „Allar tillögurnar sýna djúpan og ígrundaðan skilning á þeim markmiðum sem Borgarbókasafnið vill ná er varðar væntingar til byggingarinnar þar sem öll eru velkomin á sínum forsendum í fjölbreyttum vistarverum,“ segir þar enn fremur.

Fjölbreyttur ævintýra- og fróðleiksheimur

Úr dómnefndaráliti um vinningstillögu: „Tillagan er leikandi og skemmtileg. Ferðalagið um Vitaveg er til þess fallið að veita gestum innblástur og eins og segir í greinargerðinni þá „eykst skynvit, þekkingarvit og menningarvit gesta“.

Tillagan svarar í heild sinni skemmtilega og vel væntingum um fjölbreyttan ævintýra- og fróðleiksheim fyrir fólk á öllum aldri.  Það er sterkt samhengi og tenging í gegnum bygginguna með Vitaveginum og sjónrænum tengingum sem skapast á milli hæða með opnunum í plötur. Uppröðun starfseminnar er skynsamleg og sannfærandi. Þó mætti þróa betur skipulag opnu rýmanna á 1. og 5. hæð (Vitatorg og Borgaratorg).

Ánægjulegt er hvernig endurnýting og vistvæni er hugsuð inn í tillöguna, auk umfjöllunar um hvernig á að svara kröfu um BREEAM-vottun.

Tillagan sýnir nútímalegt og sveigjanlegt bókasafnsrými og góðan skilning á starfsemi framtíðarbókasafnsins. Vitavegurinn í gegnum bygginguna er skemmtilegur og notendavænn og hugað er vel að fjölbreyttri þjónustu safnsins og upplifun notenda í rýminu. Tillagan hefur burði til að verða framsækin, leiðandi og vakandi fyrir síbreytilegum þörfum samfélagsins.“

Áhugaverð tillaga en vantar vistvæni

Úr dómnefndaráliti um áhugaverða tillögu: „Tillagan er aðlaðandi, björt og bjóðandi. Inngangar eru áberandi, yfirbragð hússins opið og ber með sér að vera hús fólksins og tengist borgarumhverfi á góðan hátt. Endurgerð byggingarinnar er kraftmikil og óvænt. Burðinum og rytmanum úr pakkhúsinu eru gerð skil með útveggjakerfi þar sem burðarvirki útveggja heldur sér, en búið er að opna upp með stórum gluggum sem geta lýst líkt og viti og dregið að sér fólk. Ekki er þó hægt að líta framhjá því hversu hliðstætt útlit tillögunnar er útliti byggingar á Hafnartorgi, þó margt í þessari lausn sé betur leyst en þar og beri höfundum sínum gott vitni. 

Efnisval er smekklegt og leiðin í gegnum húsið skýr. Á jarðhæð tekur hlýr viðarklæddur kjarni sem sem tekur á móti gestum með upplýsingum og er það sérstaklega skemmtileg hugmynd. Umferð upp í gegnum húsið hverfist í kringum viðarkjarnann sem er góður leiðarvísir fyrir gesti, en örlítið vantar upp á að ferðalagið bjóði upp á uppgötvanir og eitthvað óvænt.

Þá minnast tillöguhöfundar aðeins lítillega á endurnýtingu, en BREEAM-vottun er öðru leyti lítið ávörpuð og því er umhverfisþáttum ábótavant í ljósi þess mikla niðurrifs sem lagt er upp með og kallar á mikla glerjun og  mikla orkunotkun. Er það verulega óheppilegt og í raun óásættanlegt í ljósi krafna um vistvæni sem Reykjavíkurborg gerir til hússins. 

Tillagan er fallega framsett og jákvætt hversu mikið er unnið með þjónustuhönnun og notendatýpur.“

Yfirlitssýning stendur yfir

Yfirlitssýning á tillögum allra teymanna fimm stendur nú yfir í Grófarhúsi og eru allir velkomnir að skoða hana í þessu stærsta og mest sótta bókasafni borgarinnar. Sýningin er á bókatorginu á fyrstu hæð, rýminu sem blasir við þegar gengið er inn í safnið og stendur yfir til 30. desember.

Rétt er að minna á þegar myndir eru skoðaðar að þetta er samkeppnistillaga sem á eftir að vinna meira með og því er ytra útlit ekki endanlegt.