Grímur og snýtubréf í gráu tunnurnar

Covid-19 Umhverfi

""

Starfsfólk sorphirðu Reykjavíkur hefur orðið vart við það að fólk setji notaðar sóttvarnagrímur og eldhúspappír í bláu tunnurnar, sem ætlaðar eru fyrir pappírsúrgang til endurvinnslu. Þessi úrgangur á heima í gráu tunnunum. Mikilvægt er vegna sóttvarna að fara eftir þessum tilmælum.

Snýtubréf og maskar eiga heima í lokuðum pokum með blönduðu heimilissorpi en ekki með pappírsúrgangi. Latexhanska og eldhúsbréf sem hafa verið notuð við þrif eða sótthreinsun skal sömuleiðis setja með blönduðum úrgangi í gráu tunnurnar.

Reykjavíkurborg hefur aukið sóttvarnir til verndar starfsmönnum sínum sem vinna við sorphirðu. Borgin hefur áður sent frá sér tilmæli um  hvernig skuli meðhöndla ýmiss konar úrgang á tímum kórónuveirunnar.

Höldum áfram að flokka

Engin breyting er á flokkun í Reykjavík, nema að efni sem hugsanlega er sóttmengað, verður að setja í gráa tunnu. Mikilvægt er að halda áfram góðri flokkun alls úrgangs og að nýta pláss í ílátum við heimili en mikil aukning hefur verið á magni heimilissorps að undanförnu.

Íbúar eru beðnir um að fylgja þessum tilmælum til að koma í veg fyrir að starfsfólk við sorphirðu smitist og til að draga úr líkum á að sorphirða í borginni raskist.