Griðasvæði fyrir seli í Reykjavík

Umhverfi

""

Umhverfis- og heilbrigðisráð hefur samþykkt tillögu um að selir fái friðhelgi á strandsvæðum og við árósa í Reykjavík og jafnframt að allri veiði á bæði land- og útsel verði hætt innan lögsögu borgarinnar.

Íslenskir selir eru á válista yfir dýr í útrýmingarhættu og hefur landsel og útsel fækkað mikið á undanförnum árum. Þar er landselur skilgreindur sem tegund í bráðri hættu og útselur sem tegund í hættu.

Mikil þörf er á að bæta lagalega stöðu sela, útbúa regluverk og veiðistjórnun og í tillögu umhverfis- og heilbrigðisráðs er m.a. lagt til að  að málefni sela verði hluti af  endurskoðun löggjafar um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum (nr. 64/1994), til að styrkja enn frekar vernd íslenska selastofnsins. Þá má efla rannsóknir á íslenska selastofninum til að tryggja góðan þekkingargrunn um ástand hans.

Það er mat sérfræðinga að friðun selastofnsins við Íslandsstrendur er löngu tímabær aðgerð til að koma í veg fyrir útrýmingu  þar sem stofnar hans eru verulega hætt komnir.