
Það hefur gefið góða raun að breyta völdum grassvæðum sem hafa verið slegin reglulega í náttúruleg svæði þar sem gróðurinn fær að vera í friði. Grænar merkur verða þá fjölskrúðugar með gulum blómum eða bláum blómstrandi jurtum.
Þórólfur Jónsson deildarstjóri hjá umhverfis- og skipulagssviði kynnti málið á fundi umhverfis- og skipulagsráðs í vikunni og lagði til ný svæði sem heppilegt væri að breyta.
Það sem einkennir svæði sem gott er að breyta er til dæmis:
- Jaðarsvæði meðfram umferðaræðum.
- Svæði með fábreytt lífríki þar sem auka má líffræðilega fjölbreytni og gera svæðin sjálfbærari en nú er.
- Möguleg búsvæði fyrir fugla og aðrar lífverur.
- Svæði sem þegar hefur náttúrulegt yfirbragð.
- Svæði þar sem magur jarðvegur er og því gisinn grasvöxtur.
Það má nota mismunandi aðgerðir til að framkvæma þetta. Einfaldlega með því að hætta að slá, en einnig má planta stökum trjám eða trjálundum, sá fjölærum jurtum og planta laukum til að undirstrika breytinguna.
Kynnt var tillaga í umhverfis-og skipulagsráði 2016 um svæði sem taka mætti úr slætti og var þá var í kjölfarið hætt að slá um 14 ha.
Nú liggja fyrir tillögur að nýjum svæðum þar sem í flestum tilfellum er verið að tengja saman og gera samfelld svæði með trjálundum og stökum trjám. Ekki liggur þó fyrir endanleg framkvæmdaáætlun og verða þau kynnt betur síðar.