Þrettán grænar tunnur undir plast eru að jafnaði pantaðar í hverri viku og hefur þeim fjölgað um 250 frá áramótum.
Vinsældir grænna tunna undir plast og blárra undir pappír hafa aukist verulega í Reykjavík á þessu ári. Gráum tunnum fyrir blandaðan heimilisúrgang er skilað á móti. Þetta gefur til kynna aukna flokkun á heimilum en það er ódýrara að hafa tunnur undir endurvinnsluefni en gráa tunnu fyrir blandaðan úrgang. Mörg heimili skila einnig endurvinnsluefnum á grenndar- og endurvinnslustöðvar.
13 grænar tunnur eru að jafnaði pantaðar í hverri viku og hefur þeim fjölgað um 250 frá áramótum. Um 150 bláar tunnur hafa verið pantaðar á árinu eða átta að meðaltali á viku. Gráum tunnum fækkar um eina á viku og spartunnum fjölgar um eina.
Margir skila á grenndarstöðvar
Valkostirnir eru fleiri og hafa margir borgarbúar valið að skila endurvinnsluefnum á grenndar- og endurvinnslustöðvar í stað þess að fá tunnu við heimilið og hafa til dæmis skil á plasti þangað aukist um 120% frá árinu 2015.
Um 48.200 tunnur eru við um 50.000 heimili í borginni og skiptast í 28 þúsund gráar, þrjú þúsund spartunnur, hvor tveggja undir blandaðan úrgang. 14 þúsund bláar undir pappírsefni og þrjú þúsund grænar undir plast.
Söfnun á plasti hæst í Reykjavík
Ef miðað er við söfnun á plasti á höfuðborgarsvæðinu á þessu ári þá er söfnun á plasti hvað hæst í Reykjavík eða 5,2 kíló á íbúa á ári. Græna tunnan og grenndargámar taka við um 2,9 kílóum að meðaltali á hvern íbúa í Reykjavík á meðan endurvinnslustöðvar taka við 2,3 kílóum. Samkvæmt greiningu SORPU þá skilaði árangur af söfnun í poka í gráu tunnuna á Seltjarnarnesi 4,8 kíló á íbúa. Það er því um 15% meiri ávinningur að söfnun í sér tunnu undir plast en í poka í gráu tunnuna.
Grenndarstöðvar hafa tekið við 53% meira á þessu ári en á sama tíma og í fyrra eða 70 tonnum í stað 33. Veruleg tækifæri eru í frekari söfnun á plasti og skilum til endurvinnslu því talið er 30 kíló falli til frá hverjum íbúa á ári.
Tengill
http://www.ekkirusl.is/