Græn og væn undir sama þaki

Umhverfi

""

Í blokk á Fornhaganum eru íbúarnir sammála um að flokka sorp og vera eins umhverfisvænir og mögulegt er.  

Í Fornhagablokkinni gera íbúarnir sér grein fyrir því við verðum að breyta lifnaðarháttum okkar ef við ætlum ekki að tortíma jörðinni.  

Íbúarnir stofnuðu því umhverfisnefnd Fornhagablokkarinnar á aðalfundi húsfélagsins. Fyrsta færsla nefndarinnar á heimasíðu blokkarinnar hljómar svona: 

,,Þetta er Óliver Orri. Hann er fæddur í júlí 2017 og er líklega yngsti íbúi blokkarinnar okkar. Fyrir hann, fyrir öll börn, fyrir komandi kynslóðir, fyrir orðspor okkar sjálfra og fyrir hina undursamlegu náttúru sem við erum jú partur af, skiptir öllu máli að við breytum lifnaðarháttum okkar.’’

Sólrún Harðardóttir er í umhverfisnefndinni. Hún er kennari og námsefnishöfundur og hefur frá blautu barnsbeini haft brennandi áhuga á náttúrunni og unnið að náttúruvernd á ýmsan hátt. 

Markmið nefndarinnar er m.a. að auðvelda íbúum að taka upp vistvænni lífshætti og skapa vettvang til þess að deila hugmyndum sín á milli. Íbúarnir vilja gjarnan deila reynslu sinni og ráðum í umhverfisvænum lausnum með öðrum. 

,,Íslendingar eru með eitt stærsta vistspor í heimi en það er mælikvarði á hversu mikið af gæðum jarðar fólk nýtir með neyslu sinni og hversu miklum úrgangi eða mengun það skilar frá sér,’’ segir Sólrún.

 

,,Þetta reddast ekki – nema við gerum eitthvað.’’

 Nefndin byrjaði á því að leggja áherslu á sorp og úrgang. Íbúum í blokkinni var leiðbeint um flokkun úrgangs og þeir hvattir til að flokka sem mest. Nú hefur gráum tunnum verið fækkað í sorpgeymslum allra stigaganga og komnar grænar og bláar tunnur í staðinn. 

Einn íbúi í blokkinni segir að það veiti sér ákveðna gleði að draga úr umbúðum og flokka heimilisúrganginn. Þannig byrji fólk ómeðvitað að hugsa um að minnka plast og pappírsnotkun þegar það flokki allt.  

Hún segir við séum komin að ákveðnum þolmörkum varðandi neyslu og úrgang og nauðsynlegt sé að snúa vörn í sókn. ,,Þetta reddast ekki – nema við gerum eitthvað,” segir Sólrún. 

Í garðinum fyrir aftan blokkina er svo safnhaugur fyrir lífrænan úrgang. Moltan sem þar myndast er nýtt í garðinum m.a. í lítinn grænmetis- og kryddjurtagarð, sem íbúum er frjálst að nýta sér. 

Hún segir að afar mikilvægt sé að koma sér upp góðu skipulagi varðandi flokkun sem allir á heimilinu geti unnið eftir og koma því inn í daglega rútínu. Margar leiðir eru í boði og ein leið getur hentað einu heimili og önnur öðru. Í Fornhagablokkinni skipust íbúar m.a. á ljósmyndum af því hvernig þeir flokka á sínu heimili. 

Stjórn húsfélagsins og íbúar í blokkinni eru almennt mjög jákvæðir fyrir umhverfisnefndinni, sem Sólrún segir skipta öllu máli til að ná árangri, en þeim finnst starfið hafa gengið nokkuð vel. 

Á fundum nefndarinnar hafa einnig komið upp fjölbreyttar hugmyndir til þess að gera blokkina umhverfisvænni, t.d. koma upp hleðslustöðvum fyrir rafmagnsbíla, betri aðstöðu fyrir reiðhjól og annað slíkt. Markmiðið er að setja fram umhverfisstefnu fyrir blokkina. ,,Viðfangsefni okkar fléttast inn í starfsemi Reykjavíkurborgar og samtal þar á milli er mjög af hinu góða. Svo er aldrei að vita nema við fáum okkur hænur í garðinn einn daginn,’’segir Sólrún. Hænsnarækt í smáum stíl er enda mjög umhverfisvæn þar sem hænur éta alla matarafganga, eyða alls kyns óværu úr görðum og bera áburð á í leiðinni auk þess að verpa ljúffengum og hollum eggjum.  

Í umhverfisnefndinni eru Birna Dís Björnsdóttir, Guðrún Gísladóttir, Katrín Ólafsdóttir, Sólrún Harðardóttir og Theodór Ingi Ólafsson.

Hér má fylgast með heimasíðu Fornhagablokkarinnar.

Áfram Fornhagi…