Græðlingar í hverfum borgarinnar

Borgarhönnun

Í fyrra var áherslan á loftslagsbreytingar og hvernig hægt væri að auka kolefnisbindingu og ýta undir líffræðilegan fjölbreytileika í borgarrýmum til að skapa kjöraðstæður til dvalar fyrir fólk, fugla og flóru.
Bekkir og gróður á Laugalæk.

Hvar er vísir að torgi í þínu hverfi? Hvar er gott að setjast niður og njóta? Hvar er sól og skjól? Hvar verður næsta torgsvæði borgarinnar? Þessum spurningum þurfa þau að svara sem ætla að taka þátt í verkefninu Torg í biðstöðu hjá Reykjavíkurborg í ár. Þetta árið er þemað „græðlingar“ og óskað er eftir verkefnum utan miðborgar þar sem tækifæri eru til að skapa lítil torg eða dvalarsvæði í hverfum borgarinnar.

Við val á verkefnum er áhersla á notendavæna og góða hönnun sem hvetur til dvalar. Öll samþykkt verkefni verða kynnt í gróðurhúsinu á Lækjartorgi yfir sumarið. Torg miðborgarinnar skjóta niður græðlingum í hverfunum og styðja þannig við nærumhverfi íbúanna og félagslega sjálfbærni.

Upplýsingar um umsókn

Með umsókn þarf að fylgja:

  • Ítarleg lýsing á verkefninu í texta, myndum, skissum og teikningum.
  • Verk- og tímaáætlun verkefnis.
  • Gróf kostnaðaráætlun: meðal annars efniskostnaður og laun.
  • Ferilskrá allra umsækjenda með fullu nafni, kennitölu og heimilisfangi.

Umsókn sendist á: gongugotur@reykjavik.is

Merkja þarf í fyrirsögn: Umsókn um Torg í Biðstöðu 2023. Umsóknarfrestur rennur út 3. apríl 2023.

Almennt um Torg í biðstöðu

Torg í biðstöðu hefur verið í gangi frá árinu 2011. Markmið verkefnisins er að búa til skemmtilegri svæði, hampa því óvænta og vera vettvangur róttækra tilrauna með borgarumhverfið.

Í fyrra var áherslan á loftslagsbreytingar og hvernig hægt væri að auka kolefnisbindingu og ýta undir líffræðilegan fjölbreytileika í borgarrýmum til að skapa kjöraðstæður til dvalar fyrir fólk, fugla og flóru.