Gott tækifæri til endurheimtar votlendis í Úlfarsárdal

Umhverfi

""
Samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er stefnt að því að endurheimta votlendi í Úlfarsárdal. 
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur lagði fram tillögu á fundi sínum þann 15. desember 2014 að ráðast skyldi í það verkefni að endurheimta votlendi í Úlfarsárdal þar sem um aðgerð með fjölþætt gildi væri að ræða, bæði sem náttúruverndaraðgerð og aðgerð til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
 
Í kjölfarið lét umhverfis –og skipulagssvið Reykjavíkur vinna úttekt á tækifærum til endurheimtar votlendis í ofanverðum Úlfarsárdal og fékk til þess verkfræðistofuna VERKÍS.  Arnór Sigfússon, dýravistfræðingur hjá VERKÍS, kynnti niðurstöður úttektarinnar á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur í vikunni.

50 fuglategundir á svæðinu

Svæðið sem um ræðir er norðan Úlfarsár, austan við núverandi byggð í Úlfarsárdal eða frá Víðimýri í vestri og út að sveitarfélagamörkum við Mosfellsbæ í austri. Umtalsverð framræsla var á svæðinu um og eftir miðja síðustu öld og í dag eru þar ræktuð tún með skurðum sem aðallega eru notuð fyrir hrossabeit. Svæðið er í dag mikið gróið og enn nokkuð um votlendi með fjölbreyttum votlendisgróðri en graslendi ríkjandi á framræstu svæðunum og því tækifæri til að auka umsvif votlendisins töluverð. Fuglalíf í Úlfarsárdal er fjölbreytt en yfir 50 fuglategundir hafa sést  á svæðinu og þar af er um helmingur reglulegir varpfuglar.
 
Í skýrslu VERKÍS eru lagðar fram tillögur að aðgerðum á um 87 ha svæði. Ekki er hægt að endurheimta votlendi á öllu svæðinu þar sem efsti hluti brekkunnar (en svæðið er í töluverðum halla) og holtin sem standa upp úr landi næst ánni verða ekki bleytt. Þá er hluti svæðisins þegar vel blautur. Í tillögu að aðgerðaáætlun er lagt til að skurðir verði stíflaðir á nokkrum stöðum, sums staðar eru leifar af uppúrgreftri á bökkum þeirra en annars staðar er þörf á að flytja að efni. Þar sem skurðir standa í halla þarf að setja grjót í stíflur til að minnka líkur á rofi í flóðum og gæta þarf þess að loka ekki fyrir alla farvegi. Einnig er lagt til að á nokkrum stöðum megi skafa ofan landi á skurðamótum og búa til litlar tjarnir. Forðast skal of djúpa skurði og tjarnir til að öryggi fólks og búfénaðar sé ekki stefnt í voða.
 

Fjölbreytni smádýralífs

Í skýrslunni er greint frá líklegum áhrifum endurheimtaraðgerða á gróður og dýralíf. Við endurheimtina hækkar grunnvatnsstaða og við það ná votlendisplöntur sér aftur á strik en þurrlendisgróður hopar. Þar sem fjölbreyttur votlendisgróður er fyrir á svæðinu má búast við að þessi þróun geti orðið nokkuð hröð. Nýjar tjarnir auka fjölbreytni smádýralífs og laða að ýmsa votlendisfugla svo sem endur, gæsir og óðinshana. Þá ætti vaðfuglategundum eins og lóuþræl, jaðrakan og hrossagauk að fjölga. Fuglar sem sækja í þurrari gróðurlendi eins og heiðlóu og spóa gæti hins vegar fækkað

Einnig er vikið að því í skýrslunni hvernig endurheimtin mun draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með aukinni bindingu kolefnis. Þar sem niðurbrot jurtaleifa í votlendi er mun hægara en á þurrlendi þá safnast kolefni upp í miklum mæli þar sem vel er blautt. Við framræslu votlendis losnar þetta kolefni sem og metan en hvoru tveggja eru gróðurhúsalofttegundir. Við endurheimtina snýst þetta við með aukinni bindingu. Gróft mat á mögulegri bindingu við endurheimt votlendis í Úlfarsárdal miðað við þekkta staðla gefur til kynna að allt að 400 tonn af kolefni gætu bundist á ári sem er umtalsvert. Er þessum útreikningum gerð nánari skil í skýrslu VERKÍS.

Heimsóknir án röskunar

Einnig er lagt til í úttekt VERKÍS að svæðið verði skipulagt í samstarfi við landslagsarkitekta og náttúrufræðinga þannig að almenningur geti heimsótt svæðið án þess að það valdi röskun á votlendi eða trufli fuglalíf. Þannig væri hægt að nota svæðið til útivistar, sér í lagi fuglaskoðunar og til fræðslu fyrir skóla t.d. í nálægum hverfum. Gæti svæðið orðið að friðlandi fyrir fugla en það er nú skilgreint sem hverfisverndarsvæði í aðalskipulagi Reykjavíkur og Úlfarsá og bakkar hennar eru á náttúruminjaskrá.
 
Tengill