Gott að finna að maður er ekki bara númer í kerfinu

Skorri Steingrímsson er í dag húsvörður í stóru fjölbýlishúsi og kann mjög vel við sig þar.
Skorri Steingrímsson húsvörður hallar sér upp við vegg í mötuneytinu í Árskógum.

Sérfræðingar í Atvinnu- og virknimiðlun Reykjavíkurborgar hafa komið að um níutíu ráðningum á innan við einu ári. Einn þeirra sem fékk starf með milligöngu hennar er Skorri Steingrímsson, sem hafði hug á að verða húsvörður og fékk þann draum uppfylltan með milligöngu sérfræðinga Atvinnu- og virknimiðlunar.  

Þurfti að breyta alfarið um stefnu

Skorri hefur í gegnum tíðina gegnt afar fjölbreyttum störfum, sem oft fylgdu bæði líkamlegt álag og hark. Hann vann til að mynda í járnabindingum um árabil og var á sjó lengi vel. Þegar hann var að nálgast sextugt var honum ljóst að hann þyrfti að breyta til og öðlast meiri stöðugleika í lífinu. „Ég hafði fengið vinnu við að keyra brauðbíl en missti hana og varð atvinnulaus í kjölfar þess. Ég vissi að ég þyrfti að breyta um stefnu og ég beit það í mig að ég gæti orðið góður húsvörður. Þetta var einmitt á þeim tíma sem námskeiðið hjá Atvinnu- og virknimiðlun var að byrja. Ég sagði frá þessu þar og það var greinilega hlustað. Þetta starf hefði nær örugglega farið framhjá mér ef ég hefði þurft að finna það sjálfur á miðlunum. Ráðgjöfin og milligangan hjá Atvinnu- og virknimiðlun reyndist því krítísk fyrir mig.“

Skorri er húsvörður í húsfélagi tveggja hárra fjölbýlishúsa í Breiðholti, þar sem býr fólk sem er 60 ára og eldra. Hann kann afar við sig þar. „Margt af því sem ég hef unnið við í gegnum tíðina nýtist mér hér og gerir mér kleift að sinna þessu starfi vel og með ánægju. Þetta eru helst smáviðgerðir, þrif og aðstoð við hitt og þetta, sem hentar mér mjög vel.“

Hann segir þann einstaklingsbundna stuðning sem hann fékk hjá Atvinnu- og virknimiðlun hafa skipt sköpum. „Að skynja að það er raunveruleg manneskja tilbúin að vinna í þínu máli skiptir máli. Ég fann að ég var ekki bara eitthvert númer í kerfinu og það var bara yndislegt.“

Góður árangur af starfinu

Hjá Atvinnu- og virknimiðlun starfa þrír sérfræðingar auk verkefnastjóra sem leggja metnað sinn í að vinna með hverjum og einum sem til þeirra leita út frá áhuga, starfsreynslu og menntun. Áætlanir gerðu ráð fyrir að miðlunin kæmi að 80 ráðningum á tímabilinu 1. maí 2023 til 30. apríl 2024 og er þetta því árangur umfram væntingar. Nú hefur verið tekin ákvörðun um að starfsemin haldi áfram, enda þykir verkefnið lofa góðu.

„Markmiðið okkar er alltaf að auka lífsgæði einstaklinga.“

Atvinnu- og virknimiðlun Reykjavíkurborgar varð til í miðjum heimsfaraldri Covid. Þá var innan hennar vinnumiðlun á vegum mannauðs- og starfsumhverfissviðs og stuðnings- og virkniúrræði á vegum velferðarsviðs. Miðlunin hefur verið rekin í núverandi mynd innan Virknihúss sem þróunarverkefni til tveggja ára. Þar fá fyrst og fremst vinnufærir einstaklingar, sem eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum og fá fjárhagsaðstoð til framfærslu, aðstoð við atvinnuleit. Lagt er upp með að einstaklingur sem kemur til miðlunarinnar verði kominn í starf á innan við 3 mánuðum.

Valdeflandi aðstoð út á vinnumarkað 

Atvinnu- og virknimiðlun er úrræði hjá Reykjavíkurborg sem hefur það að markmiði að undirbúa og efla einstaklinga til virkni og þátttöku á vinnumarkaði. Hópurinn sem fær aðstoð Atvinnu- og virknimiðlunar er allt annað en einsleitur. Einstaklingar sem fá þjónustu hennar eiga sameiginlegt að vera án atvinnu og finna af einhverjum ástæðum ekki aftur leiðina inn á vinnumarkað. Þeim gefst tækifæri til að taka þátt í námskeiðunum „Út á vinnumarkaðinn“ eða „Getting ready for a job“ sem er miðað að enskumælandi fólki. Þar er fjölbreytt fræðsla, hópavinna, vinnustofur og kynningar frá atvinnulífinu, svo fátt eitt sé nefnt.

Þær Gunnhildur Hekla Jóhannsdóttir, Elín Ólafsdóttir og Aðalheiður Hilmarsdóttir eru allar sérfræðingar í Atvinnu- og virknimiðlun. Þeim ber saman um að starf þeirra sé afar gefandi og fátt skemmtilegra en þegar vel tekst við að para saman einstakling og fyrirtæki. Þær eru alltaf á höttunum eftir störfum sem henta þeim fjölbreytta hópi fólks sem fær þjónustu miðlunarinnar og þær veita stuðning þegar fólkið hefur sjálft sótt um störf.

Aðalheiður Hilmarsdóttir, Gunnhildur Hekla Jóhannsdóttir og Elín Ólafsdóttir eru allar sérfræðingar í Atvinnu- og virknimiðlun. Á myndinni standa þær fyrir framan húsnæði Atvinnu- og virknimiðlunar.
Aðalheiður, Gunnhildur og Elín eru allar sérfræðingar í Atvinnu- og virknimiðlun.

 

„Það getur verið erfitt að koma sér aftur af stað þegar fólk hefur verið lengi í burtu frá atvinnulífinu. Það má segja að við séum málsvarar þeirra sem koma til okkar og stundum erum við líka tengslanetið þeirra, því mörg þeirra hafa ekkert slíkt,“ segir Gunnhildur og Heiða bætir við: „Við skoðum áhugasvið og styrkleika fólks, hjálpum því að laga eða gera ferilskrá og Alfreð-prófíl til að hefja markvissa atvinnuleit. Oft þarf ekki meira til og fólk finnur sjálft starf eftir að hafa undirbúið sig með okkur. Stundum eru áskoranir eða eyða í ferilskrá fólks, sem gerir að verkum að það fær ekki atvinnuviðtal. Í slíkum tilfellum getum við hringt í atvinnurekendur og talað máli viðkomandi. “  

Alltaf markmiðið að bæta lífsgæði fólks 

Einstaklingar koma í Atvinnu- og virknimiðlun eftir að hafa verið vísað þangað af ráðgjafa af miðstöðvum Reykjavíkurborgar eða frá Rafræni miðstöð. Ef ekki gengur að finna starf taka aðrar leiðir við, eins og önnur virkniúrræði í Virknihúsi, endurhæfing eða annað. „Hvort sem fólk fær vinnu eða ekki reynum við alltaf að beina því í átt til betra lífs. Ef þetta gengur ekki hjá okkur er eitthvað annað úrræði sem tekur við þeim,“ segir Elín. „Markmiðið okkar er alltaf að auka lífsgæði einstaklinga. Þegar fólk er í atvinnuleit bendum við því á að stundum þurfi að víkka leitina og taka það starf sem býðst til að komast af stað. En það kemur fyrir að fólk finnur draumstarfið strax með okkar milligöngu og það er auðvitað ofsalega gaman þegar það gerist.“