Göngum vel um grenndarstöðvarnar

Umhverfi

""

Umgengni við margar grenndarstöðvar fyrir flokkuð úrgangsefni hefur verið ábótavant síðustu daga en líklegt er að orsökin felist í nokkrum samverkandi þáttum.

Grenndarstöðvar eru nú á 57 stöðum í Reykjavík og sér vinnuflokkur á vegum Reykjavíkurborgar um þrif í kringum þær. Umgengni við sumar stöðvar hefur verið býsna slæm eftir jólin. Magn endurvinnsluefna margfaldast um hátíðarnar og því eykst álagið á stöðvarnar mikið. Hins vegar gekk hirða við heimili í Reykjavík mjög vel fyrir jól og var unnið um helgar til að tryggja að tunnur sem flestra íbúa í borginni væru því sem næst tómar fyrir jól. Veður var líka mjög hagstætt fyrir starfsfólk sorphirðunnar.  

Slæm umgengni við grenndarstöðvarnar hefur m.a. falist í því fólk hefur skilið þar eftir grófan úrgang, húsgögn og annað sem á alls ekki heima við grenndargámana. Slíka hluti á að fara með í endurvinnslustöðvar Sorpu. Endurvinnslustöðvar Sorpu taka einnig við flokkunarefnum og ef grenndargámar eru fullir er best að fara með flokkunarefni þangað eða einfaldlega sýna dálitla þolinmæði og bíða eftir tæmingu.   

Grenndarstöðvar eru góður kostur fyrir heimilin til að skila flokkuðum úrgangi eins og pappír, gleri og plasti.  Bandalag íslenskra skáta hefur umsjón með gámum fyrir drykkjarumbúðir með skilagjaldi og Rauði kross Íslands með gámum undir textíl á grenndarstöðvunum en vegna mikillar notkunar þarf að endurmeta losunartíðni á þeim gámum.

Takk fyrir að flokka

Reykjavíkurborg fagnar mikilli notkun á grenndarstöðvunum og nú er unnið að því að fjölga grenndarstöðvum, annars vegar við gatnamót Sogavegar og Réttarholtsvegar auk þess sem bætt verður við grenndarstöð í nágrenni við Klambratún. Þetta mun m.a. létta á grenndarstöðvum við Bústaðaveg og Klambratún sem eru stærstu skilastaðir flokkunarefna í borginni.

Starfsfólk Reykjavíkurborgar hefur undanfarna viku hreinsað til í kringum grenndarstöðvarnar og var pallbíll t.a.m. fylltur fimm sinnum í Breiðholti af umframúrgangi sem fólk hafði skilið eftir við stöðvarnar.

Reykjavíkurborg mælist til þess að allir taki höndum saman og gangi vel um þessar stöðvar og umhverfi þeirra. Laust rusl vill gjarnan fjúka um næsta nágrenni sem er slæmt fyrir umhverfið. Ef gámar eru fullir er alltaf hægt að fara á næstu endurvinnslustöð Sorpu og þar er alltaf tekið við endurvinnsluefnum. Takk fyrir að flokka.