Göngugötusvæðið í miðborginni verður stækkað á Þorláksmessu í öryggisskyni. Um er að ræða öryggislokun að beiðni Ríkislögreglustjóra vegna aukins mannfjölda sem leggur leið sína á Laugaveg og nágrenni á þessum degi.
Hefð er fyrir því að fólk fari í miðborgina á þessum síðasta langa verslunardegi fyrir jól. Með lokuninni er gætt að öryggi gangandi vegfarenda og myndað aukið rými fyrir gesti miðborgarinnar. Með þessu er enn fremur skapað betra verslunar- og þjónustuumhverfi á Þorláksmessu.
Götulokanirnar standa yfir allan daginn frá klukkan 14-23 en skilti hafa verið uppi í nokkurn tíma við Laugaveg til að minna á lokunina. Vöruafgreiðsla verður heimil frá klukkan 7-14.
Gestir eru hvattir til að fylgja gildandi sóttvarnarreglum en þær er hægt að skoða á Covid.is.
Skoða kort í góðri upplausn sem sýnir hvernig götulokunum verður háttað á Þorláksmessu 2021.