Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar hóf fundaröð um loftslagsmál þriðjudaginn 12. mars og bauð öflugu fagfólki, m.a. úr grasrótinni að flytja efni í samstarfi við Sigurborgu Ósk Haraldsdóttir, formann skipulags- og samgönguráðs og Líf Magneudóttur formann umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkurborgar.
Vakning í loftslagsmálum er hafin með nýju móti og er sænskt ungmenni í fararbroddi í Evrópu um þessar mundir á þeim vettvangi. Hin 15 ára Greta Thunberg sem er aðgerðarsinni í loftslagsmálum. Hún varð þreytt á því að bíða eftir atvinnulífinu og stjórnmálafólki og ákvað að efna til skólaverkfalla fyrir loftslagið. Slík verkföll hafa verið víða um heim síðustu vikur, einnig á Íslandi, og hafa vakið gríðarlega athygli í fjölmiðlum um allan heim. Föstudaginn 15. mars verða alheimsverkföll ungmenna í skólum m.a. í Reykjavík.
Í könnunum Gallup um umhverfismál sagðist rúmlega helmingur svarenda hugsa mikið um hvað þeir gætu gert til að draga úr áhrifum sínum á loftslagið. Á fundi umhverfis- og skipulagssviðs á þriðjudaginn var m.a. spurt: Hvaða áhrif getur borgarskipulag haft á loftslagsmál? Hvernig tengist skipulag og hönnun heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem eru besta áætlun í heimi til að takast á við loftslagsbreytingar?
Pétur Halldórsson hjá Ungum umhverfissinnum var með öfluga kynningu sem vakti góða umræðu. Hann sagði frá starfi Ungra umhverfissinna og alþjóðlegu tengslaneti umhverfissinna á Norðurslóðum. Hann tengdi baráttuna sterklega við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í loftslagsmálum sem hefði skapað samstarf þjóða í málaflokknum.
Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir hjá Grænni byggð, Halldór Þorgeirsson hjá Loftslagsráði og Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs brugðust og bættu við og tóku þátt í lifandi og uppbyggilegum umræðum sem áttu sér stað á Kjarvalsstöðum.
Sigurborg Ósk sagði að við þyrftum að bregðast við strax. Hún nefndi að Reykjavík hefði sett sér Loftslagsstefnuna Kolefnishlutlaus 2040. „Loftslagsváin sem nú steðjar að er orðin slík að tíminn er af skornum skammti. Ógn okkar tíma er hins vegar ekki stríð heldur loftslagsbreytingar. Stórbrotnar og öfgafullar breytingar sem ógna siðmenningu okkar og vistkerfi jarðarinnar. Viðurkennum umfang vandans því við erum að renna út á tíma. Já, okkur liggur lífið á.“
Fundargestir voru sammála um að þetta hefði verið gagnlegur og upplýsandi fundur sem hvetti fólk til umhugsunar og aðgerða. Næsti fundur í þessari röð verður þriðjudaginn 9. apríl á Kjarvalsstöðum.
Hægt er að horfa á fundinn hér:
„Hvernig tengjum við sálfræði inní loftslagsmálin?” - Páll Jakob Líndal, umhverfissálfræðingur.
„Hver er rótækasta breyting sem þú myndir gera til að takast á við loftslagsvandann á morgun?” - Líf Magneudóttir.
„Við erum í raun að rústa framtíð unga fólksins ef við gerum ekkert” - Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir hjá Grænni byggð.
,,Er hægt að fá neytendur til að taka upplýstari ákvarðanir í verslunum, afhverju liggur það ekki fyrir hvert kolefnisspor fyrir vörur er í verslunum?'' - Patresía, fundar gestur.