No translated content text
Gleðiganga Hinsegin daga og hátíðahöld henni tengd fara fram laugardaginn 8. ágúst. Í tengslum við hátíðina er búist við miklum fólksfjölda í miðborginni og óhjákvæmilega verða þar raskanir á bílaumferð. Athygli er vakin á því að götur verða lokaðar í kringum gönguleiðina og hátíðasvæðið frá kl. 12 á hádegi og þar til hátíðardagskrá við Arnarhól lýkur. (sjá kort neðst í fréttinni)
Gangan leggur af stað frá Vatnsmýrarvegi kl. 14, framhjá Umferðarmiðstöðinni, eftir Sóleyjargötu, Fríkirkjuvegi og Lækjargötu. Að göngunni lokinni hefst hátíðardagskrá við Arnarhól sem stendur til kl. 17:30.
Íbúar Reykjavíkur og gestir eru beðnir að sýna umburðarlyndi og eru hvattir til að nýta sér þjónustu Strætó (sjá www.straeto.is). Einnig benda Hinsegin dagar ökumönnum á að í miðborginni eru bílastæðahús sem oft hafa verið illa nýtt á meðan hátíðahöldunum stendur og engin ástæða er til að leggja bílum ólöglega. Leigubílar munu hafa aðstöðu til að taka upp farþega í Ingólfsstræti (á bak við styttuna af Ingólfi Arnarsyni) á meðan götulokunum stendur.
Allar upplýsingar um gönguna má finna á www.hinsegindagar.is.