Gleði í Gamlárshaupi ÍR

Samgöngur Mannlíf

""

Gleðin er við völd þegar þátttakendur mæta til leiks í Gamlárshlaupi ÍR, en auk hefðbundinna keppnisbúninga mæta fjölmargir í frumlegum og litríkum búningum. Inga Dís Karlsdóttir, hlaupastjóri, segir Gamlárshlaupið vera einn eftirminnilegasta hlaupaviðburð ársins. Það sé skemmtileg blanda af keppnishlaupi, áramótaskemmtun og fjölskyldusamveru.  

Hart er barist um verðlaun fyrir frumlegasta búninginn. Aðrir mæta að sögn Ingu Dísar í sínu harðasta keppnisskapi og setja markið á ekkert nema bæta árangur sinn á þessum síðasta degi ársins enda leiðin slétt og einföld.  

Hlaupaleiðin er um hluta Sæbrautar, en þrengt verður að bílaumferð og götum lokað eftir atvikum meðan hlaupið stendur yfir. Hlaupið verður ræst  kl. 12 frá Hörpunni á Gamlársdag. Sjá nánar um lokanir.

Fjölmennt almenningshlaup   

Gamlárshlaupið er eitt af fjölmennustu almenningshlaupum sem fara fram hér á landi en á síðasta ári voru 1920 þátttakendur skráðir til leiks. Hlaupið dregur að sér unga sem aldna en yngsti keppandi síðasta árs var tveggja ára og sá elsti 79 ára. Fjöldi erlendra ferðamanna á meðal þátttakenda fer stækkandi ár frá ári en á síðasta ári voru þátttakendur frá 35 þjóðlöndum.  Skráning er á gamlarshlaup.is. Þátttökugjald hækkar mánudaginn 29. desember.

Auk 10 km hlaups er boðið upp á 3 km skemmtihlaup þannig að nú ættu sem flestir að geta tekið þátt, jafnt byrjendur sem börn og tilvalið fyrir fjölskyldur að taka sig saman á þessum síðasta degi ársins og taka þátt. Það er skemmtileg upplifun fyrir börn að gera sér glaðan dag með foreldrum íklædd grímubúningum í miðborg Reykjavíkur. 

Frjálsíþróttadeild ÍR hefur veg og vanda að framkvæmdinni og ríkir mikil eftirvænting í þeirra röðum fyrir undirbúningnum og hlaupdeginum sjálfum, en ekki síst að sjá hversu margir mæta og hvort þátttökumetið verður slegið! Gamlárshlaupið á sér langa sögu sem einn stærsti og elsti hlaupaviðburður landsins en hlaupið hefur verið haldið sleitulaust í 44 ár, hvernig sem hefur viðrað.