Glænýtt lag Barnamenningarhátíðar 2020 eftir Daða Frey

Skóli og frístund Menning og listir

""

Barnamenningarhátíðarlagið sem tónlistarmaðurinn Daði Freyr hefur samið í samstarfi við börn í 4. bekkjum í borginni er tilbúið. Texti lagsins er byggður á hugmyndum 4. bekkinga um  hvernig heimurinn væri ef þau fengju að ráða.

Lagið nefnist Hvernig væri það? og kemur út á Spotify og Youtube síðu Barnamenningarhátíðar á morgun þriðjudaginn 19. maí. Nemendur fjórða bekkjar fá fyrst að heyra lagið og horfa á myndbandið sem Daði er búinn að gera við lagið. 

Miðvikudaginn 20. maí klukkan 9:00 að morgni verða svo haldnir tónleikar á netinu með Daða Frey þar sem hann flytur nokkur af sínum vinsælustu lögum og auðvitað nýja lagið. Tónleikarnir voru upphaflega skipulagðir sem opnunarviðburður Barnamenningarhátíðar í Hörpu í ár sem ekkert varð af vegna Covid-19. Til þess að dreifa gleðinni sem víðast hefur því verið ákveðið að hafa tónleikana opna fyrir alla á Facebooksíðu Barnamenningarhátíðar.

Hér er smá textabrot úr laginu svo að þið getið byrjað að láta ykkur hlakka til;

Kaupum minna drasl

notum minna plast

verum góð við hvert annað

hvernig væri það?

pössum jörðina

friður allstaðar

hvernig væri það?