Deiliskipulag fyrir Heklureit, eða fyrir lóðirnar við Laugaveg 168-174a, hefur verið samþykkt eftir auglýsingu og að teknu tilliti til athugasemda. Í tillögunni eru settar fram skipulagslegar heimildir fyrir íbúðir, atvinnustarfsemi og gististarfsemi.
Um er að ræða íbúðarhús, 2ja til 7 hæða, með möguleika á 8. hæð á norðvesturhorni Laugavegs 168. Byggðin er mótuð með tilliti til landslags, sólargangs og veðurfars. Hún rís hæst til norðurs við Laugaveg og er lægst til suðurs við Brautarholt.
Byggingarnar skulu vera stallaðar með ríku tilliti til sólarátta og byggð skipulögð þannig að miðlægur inngarður sé í góðu skjóli fyrir veðri og vindum við allar byggingar. Gert er ráð fyrir sérafnotaflötum fyrir íbúðir á jarðhæðum og svölum á efri hæðum.
Á skipulagssvæðinu er gert ráð fyrir allt að 436 íbúðum ásamt verslunar- og þjónustustarfsemi á jarðhæðum. Heildar flatarmál ofanjarðar á lóðunum er 44.083 m2 (A+B rými). Þar af eru lágmark 2.123 m2 undir verslanir og þjónustu.
Yrki arkitektar gerðu tillögu að deiliskipulaginu. Hún var fyrst lögð fram árið 2018, hún var endurskoðuð 2021 og hefur nú tekið breytingum eftir auglýsingatíma og umsögn skipulagsfulltrúa.
Gert er ráð fyrir að allar byggingar á lóð Laugavegs 168-174a verði fjarlægðar að undanskyldu borholuhúsi.
Jákvæð áhrif á ferðavenjur
Samgöngur verða mjög góðar á þessu svæði, bæði akstursaðkoma og almenningssamgöngur. Í deiliskipulaginu stendur: „Staðsetning skipulagssvæðisins við samgönguás fyrirhugaðrar Borgarlínu, nálægð við miðborgina og stór atvinnusvæði ásamt blandaðri, fjölbreyttri landnotkun er líkleg til að draga úr notkun einkabíla og styðja við notkun almenningssamgangna og virkra ferðamáta, þ.e. göngu og hjólreiða. Áhrif deiliskipulagsins kunna að vera jákvæð á ferðavenjur, en eru háð óvissu. Áhrifin eru talin óveruleg á heildina litið hvað varðar aukningu bílaumferðar.“
Markmið skipulagstillögunnar
Tillagan skapar tækifæri til að þétta byggð og nýta land og innviði borgarinnar betur. Markmiðið er að anna eftirspurn eftir íbúðum af ýmsum stærðum í göngufjarlægð við verslun og þjónustu.