Gengið frá kaupum RVK Studios á fasteignum undir kvikmyndaver

Umhverfi Skipulagsmál

""
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Baltasar Kormákur undirrituðu í dag samning um kaup kvikmyndafyrirtækisins RVK Studios á fasteignum í Gufunesi undir kvikmyndaver.
Borgarráð samþykkti samhljóða á fundi sínum í síðustu viku  samninga við RVK- Studios um kaup á eignum fyrirtækisins á fasteignum í Gufunesi  undir kvikmyndaver í byggingunum. Byggingarnar tilheyrðu áður Áburðarverksmiðjunni en hafa verið leigðar Íslenska gámafélaginu undanfarin ár. Íslenska gámafélagið  flytur starfsemi sína úr Gufunesi á nýtt athafnasvæði Reykjavíkurborgar á Esjumelum í áföngum.


Skrifstofa eigna og atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg hafa verið í samningaviðræður við RVK-Studios um kaup á eignum og afnot lóðar. Tveir óvilhallir matsmenn voru fengnir til að meta verðmæti eignanna og var samið um kaupverð á grundvelli matsgerða þeirra.


Um er að ræða fjórar eignir, sem samtals eru tæpir 8.400 fermetrar: Hráefnageymsla 4.161 fermetrar, áfast verksmiðjuhús 2065 fermetrar, birgðageymsla 1139 fermetrar og skeljasandsþró 486 fermetrar. Lóðin sem um ræðir og byggingar eru afmörkuð sem hluti A1 á meðfylgjandi loftmynd. Umsamið kaupverð er 301.650.000 kr.
 
Vilyrði um lóðaúthlutun

Í tengslum við kaupin fær félagið vilyrði í þrjú ár fyrir um 19.200 fermetra svæði austan bygginganna. Greiðir félagið 1000 krónur á ári fyrir hvern fermetra fyrir vilyrðið þau þrjú ár sem vilyrðið stendur. Nýti félagið sér vilyrðið og fái lóðum úthlutað gengur greiðslan upp í lóðaverð. Greitt verður markaðsverð fyrir lóðirnar þegar þar að kemur.


Kvikmyndaverið verður hluti af framtíðarmynd Gufuness og ein af forsendum í skipulagssamkeppni sem þegar hefur verið efnt til og lýkur í september. Skipulagsamkeppnin tekur til mun stærra svæðis en eingöngu svæðis gömlu Áburðarverksmiðjunnar.