Geðveikur fótboltamaður Reykvíkingur ársins

""

Bergþór Grétar Böðvarsson, FC Sækó, geðveikur fótbolti, er Reykvíkingur ársins 2018. Þetta tilkynnti Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í morgun um leið og þeir renndu fyrstir manna fyrir lax í Elliðaánum þetta veiðisumar. 

Þetta er áttunda árið sem borgarstjóri útnefnir Reykvíking ársins en hefð er fyrir því að sá einstaklingur renni fyrir fyrsta laxinn í Elliðaánum. Bergþór tók daginn snemma með borgarstjóra og formanni borgarráðs, Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur.

Það bar vel í veiði þennan fyrsta veiðidag, maríulaxinn var Bergþórs, vænn og góður fiskur, sem hann setti í skömmu eftir að hann hóf veiði. Og ekki leið á löngu þar til bæði Dagur og Þórdís fögnuðu sinni veiði. 

Bergþór Grétar Böðvarsson hefur frá unga aldri elskað fótbolta og átti sér draum um að ná langt. Hann veiktist á geði og nýtti starfsorku sína í annað en boltann. Þegar könnun leiddi í ljós að margir íbúar í ýmsum búsetukjörnum borgarinnar höfðu áhuga á fótbolta átti Bergþór frumkvæði að því að Reykjavíkurborg, geðsvið LSH og Hlutverkasetur settu af stað verkefnið Geðveikur fótbolti.

Undir stjórn Bergþórs hefur fótboltalið FC Sækó dafnað með reglulegum æfingum, mótum og vináttuleikjum erlendis. Bergþór hefur varið drjúgum tíma til þess að hlúa að þessu hugsjónarverkefni, innan sem og utan vallar.

Allir jafnir í boltanum

Bergþór er öðrum hvatning og fyrirmynd í fótboltaverkefninu FC Sækó. Hann hefur á jákvæðan hátt náð að tengja saman ólíka hópa fóks, sem hafa annars sjaldan tækifæri til að hittast. FC Sækó er frábært dæmi um hvernig auka má félagsauð og ryðja burt fordómum í borginni.

Bergþór sagði sjálfur við tilnefninguna við Elliðaárnar í morgun að þegar menn eru komnir út á fóboltavöllinn þá eru allir jafnir og allir jafn geðveikir. Öllum er velkomið að taka þátt í boltanum hjá FC Sækó.

Verkefnið FC Sækó hófst í nóvember 2011 og starfar samnefnt íþróttafélag sjálfstætt. Bergþór var meðal stofnenda og hefur hann í kjölfarið sótt þjálfaranámskeið og er í dag að sögn félaga sinna aðalmaðurinn og sá sem heldur starfinu gangandi.

Markmið liðsins er fyrst og fremst er að efla og auka virkni fólks með geðraskanir, veita þeim tækifæri til að iðka knattspyrnu og draga úr fordómum.

Á æfingum og í keppni eru allir jafnir og félagsmenn styðja hvern annan. Batabolti snýst ekki bara um fótbolta, heldur er það heildarumgjörðin sem stuðlar að bata, þ.m.t  að stíga út fyrir rammann, vera liðsheild og eiga samskipti og þar hefur Bergþór gegnt lykilhlutverki með brennandi áhuga sínum og hvatningu.

FC Sækó er skipað bæði konum og körlum í geð- og velferðarkerfinu, bæði starfsmönnum og notendum þess og öðrum sem hafa áhuga á að styðja við verkefnið.