Geðhjálp fær styrk úr minningarsjóði Gunnars Thoroddsen

Stjórnsýsla

""

Geðhjálp fékk í morgun afhentan styrk upp á hálfa milljón úr minningarsjóði Gunnars Thoroddsen við hátíðlega en fámenna athöfn í sal Ráðhússins.

Það var Héðinn Unnsteinsson, formaður Geðhjálpar, sem tók við styrknum. Hann sagði við það tækifæri að „Þegar kemur að vanlíðan og mögulegum geðröskunum ætti notendum ætíð að vera gefið val. Við ættum að nýta næstu misseri til taka til í hugmyndafræði geðheilbrigðis, leita í auknu mæli annarra leiða en eingöngu lyfjalausna, ræða aukna þátttöku notenda í eigin meðferð og annarra og vinna með manneskjur út frá styrkleikum þeirra.“

Geðhjálp eru samtök notenda, aðstandenda, fagfólks og áhugafólks um bættan hag fólks með geðraskanir og geðfötlun í samfélaginu. Samtökin hafa í yfir 40 ár unnið að því að bæta þjónustu, verja réttindi og vinna gegn fordómum með hagsmunagæslu, ráðgjöf og upplýsinga- og þekkingarmiðlun. Það er óhætt að fullyrða að starfsemi Geðhjálpar hafi stuðlað að betra og réttlátara samfélagi á síðustu áratugum.

Þetta er í 34. sinn sem styrkur er veittur úr minningarsjóði Gunnars en Geðhjálp hlýtur styrkinn í ár fyrir baráttu og stuðning við málefni geðfatlaðs fólks og fólks með geðrænar áskoranir auk þess að fræða almenning um  geðheilbrigði og geðsjúkdóma og draga þannig úr fordómum í garð fólks með geðraskanir.

Minningarsjóður Gunnars Thoroddsen var stofnaður af hjónunum Bentu og Valgarði Briem 29. desember 1985. Þá voru liðin 75 ár frá fæðingu Gunnars. Tilgangur sjóðsins er að veita styrk til einstaklinga eða hópa, stofnana eða félaga, á sviði mannúðarmála, heilbrigðismála og/eða menningarmála. Gunnar Thoroddsen var borgarstjóri í Reykjavík í tólf ár, frá árinu 1947 til ársins 1959.