Gatnamót Bústaðavegar og Háaleitisbrautar endurgerð í sumar

Framkvæmdir Samgöngur

Lofmynd af nýjum fyrirhugðum gatnamótum.

Gatnamót Bústaðavegar og Háaleitisbrautar verða endurgerð í júlí og aðliggjandi götur og gangstéttir þá aðlagaðar í leiðinni. Umferðarljós og gatnalýsing verða endurnýjuð ásamt umferðarmerkjum og yfirborðsmerkingum. Ekki er verið að fullgera gatnamótin vegna sjúkraflutninga um gatnamótin til og frá bráðamóttöku Landspítalans til að tryggja öryggi sjúklinga.

Þessar aðgerðir snúast meðal annars um öryggisatriði gangandi og hjólandi vegfarenda bæði á gatnamótunum og við gönguþverun yfir Háaleitisbraut. Aðgerðirnar eiga bæta umferðaröryggi allra vegfarenda. Til stóð að byrja framkvæmdir á síðasta misseri en því var frestað. Júlí mánuður hentar best m.t.t. umferðarflæðis til að loka Háaleitisbraut neðan Bústaðavegar til að leggja hitaveitulagnir.

Gönguþverun og strætóbiðstöðvar

Á Háaleitisbraut við strætóbiðstöðvar til móts við Álmgerði og Efstaleiti verður gönguþverun. Þessi strætóbiðskýli verða færð til og endurnýjuð. Gatan verður þrengd í eina akrein í hvora átt milli biðstöðva.

Öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda um gatnamótin verður bætt verulega með aðskildum göngu- og hjólastígum að hluta um gatnamótin og endurnýjaðri ljósastýringu.

Framkvæmdin er á vegum umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar í samvinnu við Veitur. Undirbúningur framkvæmda er þegar hafinn.

Gatnamótin kláruð þegar bráðamóttakan flytur

Gatnamótin verða kláruð eftir að bráðamóttakan fer yfir á nýja Landspítalann við Hringbraut. Til að koma til móts við sjúkraflutninga þurfti að halda inni framhjáhlaupi og akrein frá Álandi og til norðurs upp Háaleitisbrautina. Reynt er að tryggja eftir bestu getu öryggi allra við breytingarnar.

Þetta framhjáhlaup er ekki tekið burt í framkvæmdum sumarsins en gert er ráð fyrir að það fari. Það er enn inni til að tryggja umferðarflæði sjúkraflutninga sem best vegna öryggis sjúklinga. Sem stendur er ekki pláss fyrir bæði göngu- og hjólaleið þvert yfir Bústaðaveginn að austanverðu en það breytist þegar framhjáhlaupið verður tekið. Þangað til verður gönguþverunin sameiginleg fyrir bæði hjólandi og gangandi vegfarendur.

Lokahönnun gatnamótanna gerir ráð fyrir göngu og hjólaleið yfir allar þveranir gatnamótanna og frekari fækkun framhjáhlaupa. Framhjáhlaupum verður fækkað um eitt í sumar. Norðvestur framhjáhlaup gatnamótanna, frá Háaleitisbraut vestur Bústaðaveg verður lagt niður.

Ástæða þess að ekki er verið að þrengja meira að akstri um gatnamótin nú er til að tryggja að ekki skapist umferðartafir sem hafa áhrif á sjúkraflutninga að bráðamóttökunni.

Endurnýjun á hitaveitulögnum

Loka þarf umferð í júlí um Háaleitisbraut neðan Bústaðavegar meðan hitaveitulagnir eru endurnýjaðar. Hjáleiðir verða um Áland og Eyrarland og/eða Fossvogsveg á meðan. Að öðru leyti verður opið fyrir umferð um svæðið. Aðkoma neyðarbíla að LSH Fossvogi verður greið allan framkvæmdatímann.

Framkvæmdir í grónum hverfum valda alltaf einhverju raski hjá íbúum nærliggjandi húsa. Reynt verður eins og kostur er að halda raski í lágmarki en óhjákvæmilega verður eitthvað ónæði af framkvæmdinni fyrir íbúa.

Ef einhverjar spurningar vakna eða íbúar vilja koma ábendingum á framfæri er hægt að hafa samband við þjónustuver Reykjavíkurborgar í síma 411 1111. Verktakinn er Stjörnugarðar ehf.