Gatnagerð og lagnir á svæði 1 á Ártúnshöfða

Skipulagsmál

Svæði 1

Borgarráð hefur heimilað umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir við gatnagerð fyrir svæði 1 á Ártúnshöfða. Áætlaður kostnaður áranna 2023-2025 er 2.323 m.kr.

Framkvæmdin felst í gerð gatna og veitukerfa fyrir nýtt íbúða- og þjónustuhverfi á núverandi iðnaðarsvæði á Ártúnshöfða. Um er að ræða upprif og förgun á núverandi yfirborði, losun klappar og lagnaskurða, jarðvegsskipti, gerð stoðveggja, lagningu fráveitu-, vatns- og hitaveitulagna, ásamt lagningu raf- og ljósleiðaralagna. Einnig gerð fyllinga og burðarlaga í götur, stíga og stéttar, ásamt uppsetningu götulýsingar og malbikunar.

Yfirborðsfrágangur gatna og borgarlands svæðisins er undanskilinn og verður boðinn út síðar í takti við uppbyggingarhraða byggðarinnar.

Verkkaupar eru umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar, Veitur ohf., Míla ehf. og Ljósleiðarinn ehf.