Fýsilegt að Miklabraut fari í stokk

Framkvæmdir Hverfisskipulag

""

Stokkur fyrir bílaumferð um Miklubraut frá Snorrabraut og austur fyrir Kringlu hefur verið til skoðunar og bendir frummat til þess að það sé fýsilegur kostur.

Verkefnið var unnið í tenglum við gerð hverfisskipulags.  Tillögur um þróunarmöguleika byggðar og umhverfis ef Miklabraut færi í stokk að hluta eru einnig byggðar á umferðarspám og frummati á stofnkostnaði við vegstokk.  Á þessum grunni er talið fýsilegt að aðskilja bílaumferð frá annarri umferð með þessum hætti.

Frummat á þróunarmöguleikum var kynnt í borgarráði á fimmtudag og jafnfram vídeó hér að ofan. Vídeóið var einnig sýnt á opnum fundi  á Kjarvalsstöðum með íbúum Hlíða, en Miklabrautin liggur um þann borgarhluta.  Íbúar í fullsetnum salnum fögnuðu þessum hugmyndum með dynjandi lófataki. 

Margvíslegur ávinningur næst með því að setja meginstraum umferðar á Miklubraut í stokk og eru þeir tíundaðir í kynningu. Betri samgöngur fyrir alla ferðamáta, en stokkur myndi skapa góðar aðstæður fyrir almenningssamgöngur, gangandi og hjólandi.  Bætt loftgæði og hljóðvist, en neikvæð áhrif bílaumferðar er mikil á þessu svæði. Betri tengingar milli hverfahluta norðan og sunnanmegin Miklubrautar, en 17 þúsund manns búa nú á þessu svæði. Þá er bent á að með stokkalausn myndi skapast möguleiki á að þróa byggð á vannýttum veghelgunarsvæðum. Fjölga mætti íbúðum og byggja upp atvinnu og þjónustu á þessu eftirsótta svæði.

Stofnkostnaður er áætlaður 21 milljarður vegna vegstokks, yfirborðsgötu og veitukerfa. Gert er ráð fyrir að sala byggingarréttar gæti fjármagnað hluta framkvæmdanna og margvíslegur ábati yrði af þessu verkefni eins og styttri ferðatími, minni loft- og hávaðamengun og færri slys.

Helstu forsendur kostnaðarmats eru:

  • 1.750 metra langur stokkur með 2+2 vegi
  • Borgargata með 1+1 fyrir bílaumferð, 1+1 fyrir almenningssamgöngur, hjólastígum og gangstéttum.

Í greinargerð með tillögunni er áréttað að verkefnið sé umfangsmikið og kalli á ítarlegri greiningar. Í næstu skrefum þyrfti m.a. að greina samgöngumálin með mun ítarlegri hætti og kanna kosti, galla og áhrif annarra valkosta til að þróa Miklubraut og nágrenni hennar.

Tengd gögn