Fyrstu skrefin í nýju landi - bæklingur fyrir fjölskyldur sem flytja til Íslands

Mannréttindi Skóli og frístund

Móðir og barn á ferðalagi

Öll sem hafa einhvern tímann flutt til nýs lands vita hversu erfið fyrstu skrefin eru í framandi umhverfi. Til að koma til móts við þarfir fjölskyldna í slíkri stöðu hefur Reykjavíkurborg í samstarfi við Pólska Skólann og Barna- og fjölskyldustofu gefið út upplýsingabæklinginn „Við og börnin okkar“.

Öll sem hafa einhvern tímann flutt til nýs lands vita hversu erfið fyrstu skrefin eru í framandi umhverfi. Fólk þarf að kynna sér marga nýja hluti á einu bretti; til dæmis hvernig haga á atvinnu- og húsnæðisleit og læra um réttindi og skyldur. Einnig getur reynt á þegar börn eru í fjölskyldunni og huga þarf að menntun og líðan þeirra.

Til að koma til móts við þarfir fjölskyldna í slíkri stöðu hefur Reykjavíkurborg í samstarfi við Pólska Skólann og Barna- og fjölskyldustofu gefið út upplýsingabæklinginn „Við og börnin okkar“. Bæklingurinn kom fyrst út árið 2014 en hefur verið uppfærður og settur í nýjan búning.  

Við og börnin okkar er upplýsingabæklingur fyrir foreldra/forsjáraðila og aðstandendur barna sem flytja til Íslands og eru að stíga sín fyrstu skref í nýju umhverfi. Bæklingurinn skýrir ábyrgð, réttindi og skyldur foreldra/forsjáraðila auk þess sem fjallað er um menntun barna og velferð fjölskyldunnar.

Bæklingurinn er í tveimur útgáfum, annars vegar á íslensku og ensku og hins vegar á íslensku og pólsku. Þessi framsetning hjálpar innflytjendum að læra ýmis hugtök á íslensku og auðveldar ráðgjöfum að nota hann í samskiptum við innflytjendur.

Bæklingurinn er aðgengilegur á vefsíðu Reykjavíkurborgar: www.reykjavik.is/vid-og-börnin-okkar

Á pólsku og íslensku: www.reykjavik.is/pl/my-i-nasze-dzieci

Á ensku og íslensku: www.reykjavik.is/en/our-children-and-ourselves

Hægt er að fletta bæklingnum á vefnum, stækka á skjá eða hlaða niður í pdf sniði.

Gerð bæklingsins er styrkt af Þróunarsjóði innflytjendamála.