Fyrsta velferðarstefna Reykjavíkurborgar samþykkt í borgarstjórn

Velferð Stjórnsýsla

""

Þjónustusvæði Reykjavíkurborgar verða fjögur, rafræn þjónustumiðstöð verður sett á laggirnar og þjónusta við börn og fjölskyldur efld. Þetta er meðal þess sem fyrsta velferðarstefna Reykjavíkurborgar leiðir af sér. Borgarstjórn samþykkti stefnuna á fundi sínum í dag en hún gildir til ársins 2030. Henni fylgir ítarleg aðgerðaáætlun fram til ársins 2025. 

Mikilvægum áfanga var náði í dag þegar borgarstjórn samþykkti fyrstu velferðarstefnu Reykjavíkurborgar. Stefnan er hugsuð sem vegvísir fyrir borgarbúa og um leið fyrir starfsfólk í velferðarþjónustu. Unnið hefur verið að henni í tæplega tvö ár en það var á fundi velferðarráðs þann 20. september árið 2019 að samþykkt var að móta heildstæða stefnu í velferðarþjónustu. Velferðarráð hefur mótað fjölda stefna í ákveðnum málaflokkum sem unnið er eftir á velferðarsviði en velferðarstefnan er rammi utan um þjónustuna og fjallar um aðgengi og skipulag þjónustunnar. 

 

Öll þjónusta skipulögð út frá þörfum notenda

Stefnumarkandi áherslur velferðarstefnunnar eru sjö. Undir hverri þeirra eru forgangsáherslur og loks vel skilgreindar, kostnaðargreindar og tímasettar aðgerðir.

 

Rauði þráðurinn í gegnum velferðarstefnuna er að öll þjónusta á að vera skipulögð og framkvæmd út frá þörfum og vilja notenda. „Við fengum hagsmunaaðila með okkur í öllu ferlinu,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs og stýrihóps um mótun velferðarstefnu. „Markvisst var leitað til núverandi notenda þjónustunnar og annarra borgarbúa í ferlinu, til þess að fá þeirra sjónarmið að borðinu og óskir þeirra endurspeglast því með beinum hætti í fjölmörgum aðgerðum stefnunnar.“ 

Á fyrri stigum var kallað eftir sögum notenda, til þess að freista þess að draga af þeim lærdóm um hvernig bæta mætti þjónustuna. Þá hafði starfsfólk velferðarsviðs og hagsmunasamtök mörg tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri, meðal annars í gegnum Þekkingardag velferðarsviðs, vinnustofur og fundi. 

Hér getur þú skoðað stefnuna í heild og hér getur þú skoðað aðgerðaáætlun velferðarstefnunnar
 

Þjónustumiðstöðvar vinni enn frekar í þágu barna og fjölskyldna

Þjónusta við börn og fjölskyldur þeirra verður aukin með samhæfingu þjónustu á vegum skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs. Samstarf sviðanna verður því aukið til muna og verður frá 1. janúar 2022 hægt að sækja samþætta skóla- og fjölskylduráðgjöf í þjónustumiðstöðvar borgarinnar, sem verða fjórar talsins. Stjórnun skóla, leikskóla og frístundamiðstöðva færist í auknum mæli út í hverfin auk þess að ráðgjöf við foreldra og starfsfólk skóla og leikskóla verður styrkt verulega. 

Einnig verður rafræn þjónustumiðstöð sett á laggirnar en hún verður fyrsta snerting allra notenda við þjónustu velferðarsviðs. Þar verður boðið upp á móttöku rafrænna umsókna, símaráðgjöf og leiðbeiningar í öllum málaflokkum sviðsins. Það er í samræmi við óskir notenda, að sögn Regínu Ásvaldsdóttur, sviðsstjóra velferðarsviðs. „Við lögðum fyrir umfangsmikila aðgengiskönnun í vor fyrir notendur velferðarþjónustu og þar komu fram sterkar óskir um að nálgast þjónustuna með rafrænum hætti. Við erum því að bregðast við því ákalli með stofnun rafrænnar þjónustumiðstöðvar. Við höfum verið í forystu í stafrænum umbreytingum, til dæmis með fjárhagsaðstoðina og munum halda áfram á þeirri braut,“ segir hún.