Fyrsta hverfisskipulagið samþykkt í auglýsingu

Skipulagsmál Hverfisskipulag

""

Nú hafa fyrstu hverfisskipulagsáætlanirnar verið samþykktar í auglýsingu í skipulags- og samgönguráði. Hverfisskipulag er nýtt skipulagstæki sem einfaldar íbúum að gera breytingar á fasteignum sínum í eldri hverfum borgarinnar og opnar möguleika á verulegri fjölgun lítilla íbúða í grónum hverfum. Fyrstu hverfin eru Ártúnsholt, Árbæjarhverfi og Seláshverfi.

Í nýju hverfisskipulagi munu íbúar að uppfylltum skilyrðum til dæmis geta fengið heimild til að stækka húsnæðið sitt með viðbyggingum. Einnig geta margir fengið heimildir til að innrétta aukaíbúðir í húsum sínum með því að, byggja við, skipta upp eldra rými eða breyta lítið notuðum bílskúr í litla íbúð.

Þessar aðgerðir geta stuðlað að verulegri fjölgun íbúða í borginni. Aðrar breytingar sem tengjast kvistum, svölum og garðskúrum koma einnig til greina. Samanlagt munu skipulagsheimildir hverfiskipulags því skapa tækifæri bæði fyrir íbúa og borgaryfirvöld.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 eru stóru línurnar lagðar að mótun borgarinnar til langs tíma. Eitt af meginmarkmiðum aðalskipulagsins er að öll hverfi borgarinnar verði sjálfbærari en áður og að gæði hins manngerða umhverfis verði sett í öndvegi.

Einhugur í Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkur

Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkur bókaði samhljóða í tilefni af samþykkt sinni:

„Í hverfisskipulagi birtist framtíðarsýn fyrir gróin hverfi og heimildir til breytinga og minniháttar uppbyggingar verða til. Allt miðast að því að hverfin verði sjálfbærari og grænni og að íbúar geti þekkt hverfin sín vel og þær heimildir sem þar er að finna hvort heldur sem það er í verslunarkjörnum eða á einkalóðum. Aldrei hefur verið farið í eins viðamikið samráð við íbúa eins og við gerð hverfisskipulags og hafa þúsundir borgarbúa á öllum aldri  komið að vinnunni, allt frá vinnu grunnskólabarna við módel af hverfunum sínum til einstaklinga sem sitja í rýnihópum. Með hverfisskipulaginu fylgja leiðbeiningar til að auðvelda skilning á skipulagi og því hvað sjálfbært hverfi er. Gerð heildstæðs skipulags fyrir hverfi borgarinnar hefur verið lengi í vinnslu enda viðamikið verkefni. Það er því fagnaðarefni að leiðbeiningar og fyrsta hverfisskipulag borgarinnar hafi nú verið samþykkt.“

Meira líf í hverfunum

Í greiningum á hverfunum hefur komið í ljós að víða þarf að fjölga íbúum og jafna aldursdreifingu, meðal annars til að nýta betur húsakosti. Fjölgun íbúa mun einnig gera hverfin líflegri, styrkja verslun og þjónustu og efla hverfiskjarna í göngufæri í hverfinu. Atriði sem einnig munu lífga upp á hverfin eru betri opin svæði og nýjar göngu- og hjólaleiðir svo eitthvað sé nefnt.

Forgangsröðun

Eftir samþykki hverfisskipulagsins geta borgaryfirvöld, í samráði við íbúa og hagsmunaðila forgangasraðað framkvæmdum í einstökum hverfum. Hægt verður að taka afstöðu til hvort byggja eigi hjólastíg eða undirgöng eða hvort endurbæta eigi hverfisgarðinn eða skólalóðina.

Öll hverfi borgarinnar munu fá sérstakt hverfisskipulag sem tekur mið af styrkleikum og veikleikum þeirra. Í hverfisskipulaginu er mótuð stefna til framtíðar um breytingar á húsnæði, fjölgun íbúa, samgöngur, græn svæði, verslun og þjónustu í hverfunum, til að nefna það helsta.

Skipulags- og samgönguráð hefur nú samþykkt að auglýsa framlagðar tillögur skv. 31. gr. Skipulagslaga nr. 123/2010. Þessu er fyrst vísað til borgarráðs til samþykktar og verður kynnt ítarlega þá.

Tenglar:

Hverfisskipulag.is