Fundur fólksins í Vatnsmýrinni

Norræna húsið í Vatnsmýri.

Borgarráð hefur samþykkt að styrkja Lýðræðishátíðina Fundur fólksins næstu þrjú ár, 2023-2025, með samningi við Almannaheill, samtök þriðja geirans. Fundur fólksins er sjálfstæð og óháð hátíð þar sem er boðið í samtal milli almennings, stjórnmálamanna og frjálsra félagasamtaka, þar sem lýðræði og opin skoðanaskipti eru leiðarstefið.

Hugmynd Almannaheilla er sú að halda hátíðina að þessu sinni í haust og á næstu árum í Vatnsmýrinni í Reykjavík og nágrenni. Dagskráratriði fari fram í Norræna húsinu og nærliggjandi byggingum. Stjórnendur Norræna hússins hafa boðið fram aðstöðu og ráðgjöf. Atriðin verði með fjölbreyttu sniði, allt frá hefðbundnum fundum og málþingum til listtengdra viðburða.

Leitað verði eftir samstarfi við aðila úr mörgum áttum, svo sem til félagasamtaka, stjórnmálaflokka, verkalýðshreyfingarinnar, grasrótarhreyfinga, atvinnulífsins, annarra sveitarfélaga, ríkisins og stofnana þess. Það er áríðandi að almenningur taki líka þátt.

Aðkoma ungs fólks fest í sessi

Lögð verði sérstök áhersla á aðild ungs fólks að hátíðinni, þátttöku þess í dagskrárliðum og mótun dagskrárinnar. Ungt fólk hefur látið sífellt meira að sér kveða í lýðræðislegri umræðu, t.a.m. um loftslagsmál. Mikilvægt er að ungt fólk verði virkt í umræðu um aðkallandi málefni sem koma til með að móta framtíð þess. Lýðræði unga fólksins var einmitt skýrt þema þegar hátíð var síðast haldin í Reykjavík. Í nýjum samningi um hátíðina, milli Almannaheilla og Reykjavíkurborgar, er þátttaka og aðkoma ungs fólks fest í sessi.

Hátíðin var fyrst haldin í Reykjavík í Norræna húsinu árið 2015 að fyrirmynd annarra Norðurlanda, sem hafa haldið sambærilega fundi. Lýðræðishátíðin Fundur fólksins er komin aftur til Reykjavíkur eftir að hafa verið haldin undir formerkjum LÝSU á Akureyri sl. þrjú ár.