Fulltrúar verkefnisins Fjölmenningarborgir kynna sér Reykjavík

Mannlíf Mannréttindi

""

Reykjavíkurborg hefur sótt um aðild verkefninu Fjölmenningarborgir (e. Intercultural Cities) sem rekið er af Evrópuráðinu. Verkefnið styður borgir í að endurskoða stefnumótun út frá sjónarhorni fjölmenningar í þeim tilgangi að móta heildstæða fjölmenningarstefnu. Markmiðið er að að gera borgunum betur kleift að stýra fjölreytileikanum í jákvæðar áttir og nýta sér þau auknu gæði sem fjölbreytileikinn felur í sér.

Þátttökurétt í verkefninu hafa einungis borgir með að minnsta kosti 30 þúsund íbúa og þurfa minnst 5% íbúa að vera af erlendum uppruna. Hlutfall íbúa Reykjavíkur með erlent ríkisfang var 8,1% í árslok 2013.

Fulltrúar Evrópuráðsins eru nú staddir hér á landi til að kynna sér aðstæður, þau eru:

  • Phil Wood, hann hefur starfað sem rithöfundur, fræðimaður, fyrirlesari og aðgerðarsinni frá árinu 2000 og unnið í yfir 30 löndum. Hann vann áður í yfirstjórn sambands breskra sveitarfélaga þar sem hann vann meðal annars að samfélagsþróun.
  • Oliver Freeman, er ráðgjafi í fjölmenningarlegri stjórnun og vinnur meðal annars í Genf og Lublin í Póllandi sem ráðgjafi við fjölmenningarlega stefnumótun. Hann hefur stundað rannsóknir á fjölmenningu í fjölda borga í Evrópu þeirra á meðal Genf, Lissabon, Limassol, Lublin, Lyon, Neuchâtel, Osló, Patras og Reggio Emilia.
  • Irena Guidikova hefur unnið sem sérfræðingur hjá Evrópuráðinu frá árinu 1994.  Hún stýrir verkefninu Fjölmenningarborgir og vinnur einng að verkefnum sem miða að því að auka lýðræðisþátttöku íbúa í Evrópu.

Í heimsókn sinni í Reykjavík hafa þau meðal annars fundað með borgarstjóra og borgarfulltrúum, grasrótarsamtökum, háskólasamfélaginu, heimsótt skóla og stofnanir og haldið kynningu um verkefnið á opnum fundi  í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Borgir sem sækja um að verða fjölmenningarborgir svara ítarlegum spurningalista um margbreytileika og hvernig tekist er á við þarfir fólks með ólíkan uppruna.

Meðal spurningar sem þarf að svara er:

  • Er fólk af erlendum uppruna að taka þátt í stjórnmálum, samfélagsumræðu og ákvarðanatöku? Ef svo er, hvernig?
  • Hver eru helstu áhyggjuefni ólíkra minnihlutahópa?
  • Eru fjölmiðlar með fjölmenningarstefnu? Ef svo er, hver er stefnan? Ef ekki, af hverju ekki?
  • Hafa verið verkefni sem hvetja til samtala, samskipta, vitundarvakningar og sáttamiðlunar?

Þetta er aðeins brot af þeim spurningum sem þarf að svara. Reykjavíkurborg hefur svarað spurningalistanum varðandi stöðu mála og hefur fengið niðurstöður þeirrar mælingar.

Heimasíða verkefnisins Fjölmenningarborgir.