Friðlýsing á Degi íslenskrar náttúru

Loftslagsmál Umhverfi

Fólk sem viðstatt friðlýsinguna stillir sér upp í fjörunni

Dagur íslenskrar náttúru er í dag, 16. september. Reykjavíkurborg hefur í samvinnu við aðra staðið fyrir friðlýsingum á fjörusvæðum og er Blikastaðakró friðlýst í dag.

„Reykjavíkurborg átti frumkvæði að þessari friðlýsingu Blikastaðakróar - Leiruvogs,“ segir Þórólfur Jónsson deildarstjóri hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar. „Ferlið gekk mjög vel og samtalið við Mosfellsbæ og Umhverfisstofnun var ánægjulegt.“

Friðlýst fjörusvæði

Borgin lagði með öðrum orðum til við umhverfisráðherra friðlýsingu þriggja fjörusvæða eða við Blikastaðakró, Grafarvog og þangfjörusvæðisins í austanverðum Skerjafirði. Nú á Degi íslenskrar náttúru er eitt af þeim fjörusvæðum friðlýst en slíkar lýsingar eru mikilvægar í sístækkandi borg bæði til að varðveita líffræðilegan fjölbreytileika en einnig til að stemma stigu við loftslagsbreytingum af mannavöldum.

Fjörusvæðin frá Geldinganesi austur fyrir Blikastaðakró einkennast af fjölbreyttum vistgerðum – leirum, þangfjörum, kræklingaáreyrum og sandfjörum sem eru lífauðugar og laða að fjölbreytt fuglalíf. Stórir hópar fuglar dvelja þar allan ársins hring og svæðið er sérstaklega mikilvægur viðkomustaður farfugla, einkum margæsa og rauðbrystinga. Í leirusetinu er ríkulegt samfélag sjávarhryggleysingja m.a. ýmis skeldýr og burstaormar þ.m.t. hinn sjaldgæfi risaskeri. Landselir eru tíðir gestir á svæðinu. Svæðið er mikilvægt og vinsælt útivistarsvæði og þar er landslag fjölbreytt og útsýni tilkomumikið.

Nýtt uppfært kort af friðlýsta svæðinu með örnefnum.

Þýðingarmikill viðkomustaður farfugla

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, undirritaði í dag — á Degi íslenskrar náttúru þessa friðlýsingu Blikastaðakróar -Leiruvogs í Grafarvogi. Friðlýsingin er unnin í samstarfi ráðuneytisins, Umhverfisstofnunar, Reykjavíkurborgar og Mosfellsbæjar. „Svæðið sem við friðlýsum í dag er mikilvægur viðkomustaður farfugla, einkum vaðfugla og fóstrar ríkulegt fuglalíf allt árið um kring, “ sagði hann í dag.

Svæðið er á náttúruminjaskrá og á skrá yfir alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði, en aðliggjandi er friðlandið Varmárósar sem friðlýst var árið 1980 og stækkað verulega vorið 2021.

Dagur íslenskrar náttúru 2022

Þess má einnig geta að Grasagarður Reykjavíkur býður upp á sveppaskoðun í garðinum kl. 12 í dag, 16. september við aðalinngang. Ókeypis aðgangur og öll velkomin.

Sýningin um villtar erfðalindir ræktaðra nytjaplantna var sett upp í morgun í tilefni af Degi íslenskrar náttúru við Norræna húsið og verður þar uppi næstu vikuna.