Friðlýsing Akureyjar í Kollafirði

Umhverfi

""

Reykjavíkurborg og Umhverfisstofnun hafa formlega kynnt áform um friðlýsingu Akureyjar í Kollafirði sem friðland, í samræmi við 49. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Meginmarkmið friðlýsingarinnar er að vernda alþjóðlega mikilvæga sjófuglabyggð, þá sérstaklega lundavarp en lundinn er tegund á válista.

Áform um friðlýsingu eru kynnt í samræmi við 2. mgr. 38. gr. náttúruverndarlaga en gert er ráð fyrir að svæði sem ekki eru á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár skuli kynnt sérstaklega.

 Akurey er lág og vel gróin eyja í Kollafirði, um 6,6 hektarar að stærð, norðaustan við Seltjarnarnes. Í Akurey verpa ýmsir sjófuglar eins og lundi, sílamáfur, æðarfugl og teista, og er lundi langalgengastur, 15.000 pör. Akurey flokkast sem alþjóðlega mikilvæg sjófuglabyggð þar sem viðmiðið er ≥10.000 pör. Markmiðið með friðlýsingu Akureyjar er að vernda þetta alþjóðlega mikilvæga fuglasvæði í Reykjavík og sér í lagi varpstöð lunda sem er á válista um fugla skilgreindur sem tegund í bráðri hættu. Einnig er markmiðið að vernda lífríki í fjöru og á grunnsævi.

Frestur til að skila athugasemdum við áform Umhverfisstofnunar og Reykjavíkurborgar er til og með 2. janúar 2019. Athugasemdum má skila á heimasíðu Umhverfisstofnunar, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða senda með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.