Friðarsúlan tendruð í Viðey

Imagine Peace Tower in Viðey island

Kveikt verður á Friðarsúlunni í Viðey í 17. sinn mánudaginn, 9. október klukkan 20:00 til að heiðra minningu John Lennons. Í eyjunni verður friðsæl athöfn en 9. október er fæðingardagur Lennon og mun Friðarsúlan varpa ljósi upp í himininn til 8. desember sem er dánardægur hans.

Á meðal gesta í athöfninni er Amina J. Mohammed aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sem mun flytja ávarp við athöfnina en hún er hér á landi í tengslum við Friðarráðstefnuna Imagine Peace Forum.

Sérstakur gestur borgarstjóra við athöfnina verður Andriy Sadovyi borgarstjóri Lviv í Úkraínu.

Siglingar og Strætó

Yoko Ono býður upp á fríar siglingar yfir sundið fyrir og eftir athöfn. Siglt verður frá Skarfabakka frá kl. 17.30 til kl. 19.30. Athugið að vegna mikillar aðsóknar undanfarin ár þarf að bóka miða fyrirfram, en aðeins 5 manns geta bókað sig á sama miða.

Strætóferðir verða frá Hlemmi að Skarfabakka á hálftíma fresti. Fyrsti vagn fer frá Hlemmi kl. 17:30 og ekið verður til kl. 19:00. Farþegar þurfa að borga almennt fargjald.

Hægt verður að kaupa veitingar í Viðeyjarnausti og Viðeyjarstofu.

Gestir eru hvattir til að klæða sig eftir veðri.

Dagskrá:

Listasafn Reykjavíkur, Borgarsögusafn Reykjavíkur halda úti dagskrá sem hefst kl. 17:45 og stendur til kl. 19.00.

  • 17:45 - Ganga á vegum Listasafns Reykjavíkur um verk Richard Serra og Yoko Ono
  • 18:00 - Söguganga á vegum Borgarsögusafns Reykjavíkur
  • 18:45 - Ganga á vegum Listasafns Reykjavíkur um verk Richard Serra og Yoko Ono
  • 19:00 - Söguganga á vegum Borgarsögusafns Reykjavíkur
Emilíana og vinir

Dagskrá vegna Friðarsúlu: 

  • 19:40 - Emilíana Torrini og vinir flytja tónlist við Friðarsúluna. Auk Emilíönu eru valinkunnir tónlistarmenn þau Pétur Ben, Helgi Jónsson, Markéta Irglová og Tina Dickow
  • 19:55 - Amina J. Mohammed, aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna
  • 19:58 - Dagur B Eggertsson, borgarstjóri flytur ávarp
  • 20:00 - Friðarsúlan tendruð undir laginu Imagine eftir John Lennon og Yoko Ono

Fyrsta ferja eftir tendrun Friðarsúlunnar siglir frá Viðey kl. 20:30. Hægt verður að taka strætó frá Skarfabakka að Hlemmi frá kl. 20:40 og þar til lokið verður að flytja gesti úr Viðey. Borga þarf almennt gjald í strætó.

Friðarsúlan „Imagine Peace Tower“ er útilistaverk eftir Yoko Ono sem var reist í Viðey árið 2007 til að heiðra minningu Johns Lennons. Friðarsúlan er tendruð árlega á fæðingardegi Lennons þann 9. október og lýsir til 8. desember sem er dánardagur hans. Listaverkið er tákn fyrir baráttu Ono og Lennons fyrir heimsfriði. Friðarsúlan, er í  formi óskabrunns en á hana eru grafin orðin „hugsa sér frið“ á 24 tungumálum en enska heitið er vísun í lagið „Imagine“ eftir John Lennon.