Friðarsúlan  í Viðey tendruð, frí sigling yfir sundið og frítt í Strætó | Reykjavíkurborg

Friðarsúlan  í Viðey tendruð, frí sigling yfir sundið og frítt í Strætó

föstudagur, 5. október 2018

Friðarsúlan í Viðey verður tendruð í 12. sinn með friðsælli athöfn á fæðingardegi John Lennon þriðjudaginn 9. október klukkan 20.00. Friðarsúlan mun varpa ljósi upp í himininn til 8. desember sem er dánardagur hans.

  • Einstök friðarstund þegar Friðarsúlan er tendruð í Viðey. Ljósmynd Roman Gerasymenko
    Einstök friðarstund þegar Friðarsúlan er tendruð í Viðey. Ljósmynd Roman Gerasymenko

Boðið er upp á fríar ferjusiglingar og strætóferðir fyrir og eftir tendrunina. Listasafn Reykjavíkur, Borgarsögusafn Reykjavíkur  og fleiri halda úti dagskrá sem hefst kl. 17.45 og stendur til 21.30.

Tónlistarmaðurinn Högni Egils flytur tónlist fyrir gesti frá 19.00-19.30 og tónlistarkonan GDRN flytur tónlist fyrir gesti frá 20.30-21.00. Tónleikarnir fara fram í Naustinu við Friðarsúluna. 

Siglingar og Strætó

Yoko Ono býður upp á fríar siglingar yfir sundið. Siglt verður frá Skarfabakka frá kl. 17.30 til 19.30. Fríar strætóferðir verða frá Hlemmi að Skarfabakka. Fyrsti vagn fer frá Hlemmi kl.17.15 og ekur til 19.00. Fyrsta ferja eftir tendrun Friðarsúlunnar siglir frá Viðey kl. 20.30. Hægt að verður að taka strætó frá Skarfabakka að Hlemmi frá kl. 20.40 og þar til lokið verður að flytja gesti úr Viðey.

Dagskrá

Dagskráin hefst kl. 17.45 með leiðsögn um verk Richards Serra í Viðey á vegum Listasafns Reykjavíkur. Klukkan 18.00. hefst söguganga um byggð og sögu í eyjunni á vegum Borgarsögusafnsins. Leiðsagnirnar verða endurteknar kl. 18:45 og 19:00.  Beint streymi verður frá athöfninni klukkan 20.00.

Farið verður frá Viðeyjarstofu. 

17.45-19.30: Fjölskyldusmiðjur á vegum Listasafns Reykjavíkur í Naustinu

19:00: Högni Egils flytur tónlist i Naustinu.

19.40: Dagskráin við Friðarsúluna hefst með kórsöng Graduale Nobili undir stjórn Þorvaldar Davíðssonar.

20:00    Dagur B. Eggertsson flytur ávarp

Yoko Ono ávarpar gesti

20:05 Ljósið á Friðarsúlunni tendrað

20:30 Tónlistarkonan GDRN flytur tónlist í Viðeyjarnausti eftir athöfn

Kynnir kvöldsins er Unnar Gerir Unnarsson. Veitingasala verður í Viðeyjarnausti og Viðeyjarstofu. 

Óskatré Yoko Ono verða staðsett í Viðeyjarnausti og Viðeyjarstofu og geta allir gestir skrifað óskir um frið á miða sem verða á staðnum og hengt á óskatrén. Allt frá því Friðarsúlan var fyrst tendruð fyrir tíu árum hafa borist yfir milljón óskir af óskatrjám víðsvegar að úr heiminum.  

Friðarsúlan „Imagine Peace Tower“ er útilistaverk eftir Yoko Ono sem var reist í Viðey árið 2007 til að heiðra minningu Johns Lennons. Friðarsúlan er tendruð árlega á fæðingardegi Lennons þann 9. október og lýsir til 8. desember sem er dánardagur hans. Listaverkið er tákn fyrir baráttu Ono og Lennons fyrir heimsfriði. Friðarsúlan, er í  formi óskabrunns en á hana eru grafin orðin „hugsa sér frið“ á 24 tungumálum en enska heitið er vísun í lagið „Imagine“ eftir John Lennon. 

Fólk er hvatt til að klæða sig vel og í samræmi við veður. Nánari upplýsingar má finna á www.videy.com.

English version on visitreykjavik.