Fríbúð í Gerðubergi

Umhverfi

Verkefnið byggir á danskri fyrirmynd þar sem reknar eru endurvinnslustöðvar í nærumhverfi íbúa, sem auka endurnot, endurvinnslu og styðja við hringrásarhagkerfið.
Ýmsir hlutir sem búið er að raða saman á borð.

Fríbúð, skiptimarkaður þar sem allir hlutir eru ókeypis, verður opnuð í Gerðubergi miðvikudaginn 25. september klukkan 16. Í fríbúðinni er líka hægt að skila ákveðnum úrgangsflokkum, fá verkfæri og muni lánaða og sækja skapandi námskeið tengd endurnotkun og viðgerðum.

Dönsk fyrirmynd

Verkefnið byggir á danskri fyrirmynd þar sem reknar eru endurvinnslustöðvar í nærumhverfi íbúa, sem auka endurnot, endurvinnslu og styðja við hringrásarhagkerfið og markmið sveitarfélaga í úrgangsmálum. Verkefnið er samstarfsverkefni Borgarbókasafnsins, umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar og SORPU.

Árstíðabundið úrval

Í fríbúðina getur þú komið með hluti sem þú vilt gefa nýtt hlutverk eða sótt það sem þig vantar. Úrvalið er árstíðarbundið; þú finnur mögulega skólatösku og hlýja vettlinga að hausti, jólaskraut í desember, skíðabúnað fyrir veturinn og reiðhjól þegar vorsólin fer að skína!

Skilakassar

Í Fríbúðinni er að finna skilakassa fyrir batterí, raftæki, brotið leirtau, ónýta potta og pönnur, kertaafganga og ýmislegt fleira.

Þrjár samsettar myndir af skilakössum fyrir hringrásarefni og dót.

Hringrásarsafnið  

Í fríbúðinni eru sjálfsafgreiðsluskápar frá Hringrásarsafninu - Munasafn RVK Tool Library, þar getur þú fengið að láni allskonar hluti; tjöld, ísvélar, smærri verkfæri og fleira þess háttar.

Viðburðir fyrir stóra sem smáa

Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá sem snýr að skapandi leiðum til að endurnýta alls konar dót, huga að umhverfinu, rækta blóm og jurtir, gera við hluti og gefa þeim nýtt líf.

Verið öll velkomin

Verið öll velkomin í Gerðuberg og heimsækið fríbúðina, farið á viðburði, fáið verkfæri að láni og skilið ónýtum ljósaperum eða batteríum sem hafa safnast fyrir í skúffunni. Fríbúðin fylgir opnunartíma Gerðubergs og er staðsett á efri hæð hússins.