Framsækið leikskólastarf fær viðurkenningu

föstudagur, 19. maí 2017

Þrír leikskólar fengu hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs í dag en þau voru veitt við hátíðlega athöfn í Tjarnarsal Ráðhússins. Þá hlaut samstarfsverkefni þriggja leikskóla sérstaka viðurkenningu. 

 • ""
  Anna Margrét Ólafsdóttir leikskólastjóri og deildarstjórar í Nóaborg tók við hvatningarverðlaunum fyrir verkefnið Barn vikunnar.
 • ""
  Ingibjörg Eyfells leikskólastjóri í Geislabaugi tók við hvatningarverðlaunum fyrir jafnréttisverkefnið Nú skal segja.
 • ""
  Anna Gréta Guðmundsdóttir leikskólakennari og verkefnastjóri listasmiðju og Soffía Þorsteinsdóttir leikskólastjóri tóku við hvatningarverðlaunum fyrir tvö skemmtileg og skapandi verkefni.
 • ""
  Samstarfsverkefni þriggja leikskóla, Borgin okkar, fékk sérstaka viðurkenningu skóla- og frístundaráðs. Á myndinni eru Arndís Gísladóttir og Sigrún Ásta Gunnlaugsdóttir leikskólastjóri fyrir Dalskóla, Rakel Snorradóttir og Þórunn Júlíusdóttir leikskólastjóri fyrir Klambra, Anna Gréta Guðmundsdóttir og Soffía Þorsteinsdóttir leikskólastjóri fyrir Sæborg, auk Skúla Helgasonar formanns skóla- og frístundaráðs og Evu Einarsdóttur varaborgarfulltrúa.

Leikskólinn Nóaborg hlaut  verðlaun fyrir verkefnið  Barn vikunnar  sem snýst um að eitt barn fær að njóta sín og vera miðpunktur í barnahópnum með því m.a. að kynna fjölskyldu sína með stuðningi kennara og foreldra.  Í umsögn dómnefndar segir m.a. að verkefnið bjóði upp á góða tengingu við foreldra og gerir gott samstarf við þá enn betra. 

Leikskólinn Geislabaugur fékk hvatningarverðlaun fyrir jafnréttisverkefnið  Nú skal segja.  Í umsögn dómnefndar segir m.a. að þetta sé brýnt verkefni og mikilvægt frumkvæði í jafnréttisstarfi með ungum börnum.

Anna Gréta Guðmundsdóttir í leikskólanum Sæborg hlaut hvatningarverðaunin fyrir frumkvöðlastarf í tveimur verkefnum, annars vegar jólagjafaverkefni  og hins vegar öskudagsbúninga þar sem frjáls sköpun í listasmiðju er höfð að leiðarljósi. Í umsögn dómnefndar segir m.a. að í þessu skapandi starfi ráða börnin ferðinni, hlustað sé á skoðanir þeirra og unnið á þeirra forsendum.

Samstarfsverkefni þriggja leikskóla,  Dalskóla, Nóaborgar og Sæborgar, hlaut viðurkenningu fyrir verkefnið, Reykjavík - borgin okkar. Í því voru börnin í hlutverki landkönnuða og rannsökuðu ýmsa staði og fyrirbæri í borginni, s.s. kirkjur, kirkjugarða, flugvélar og vatn.

Sýning á margvíslegum myndverkum barna í þessu verkefni var sett upp í Ráðhúsi Reykjavíkur á Barnamenningarhátíð og endurspeglaði fallega upplifanir þeirra og túlkun á borginni í teikningum, skúltúrum, málverkum, myndbörnum og skráningum starfsfólks.

Hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs hafa að markmiði að stuðla að nýbreytni- og þróunarstarfi og eru viðurkenning fyrir verkefni sem eru öðrum til fyrirmyndar.  Að þessu sinni bárust 26 tilnefningar vegna 12 verkefna í leikskólum borgarinnar.  

Verðlaunagripirnir voru útskornir fuglar  eftir Ingibjörgu H. Ágústsdóttir listakonu í Stykkishólmi.