Framsækið félagsstarf í framtíðinni

Velferð

""

Velferðarsvið Reykjavíkur hélt í vikunni hugmyndasmiðju um þróun félagsstarfs fullorðinna hjá sautján félagsmiðstöðvum velferðarsviðs.

Á þriðja tug sjálfboðaliða tóku þátt í hugmyndasmiðju um framtíð félagsstarfsins og lögðu til ótal hugmyndir um öflugt framboð í félagsstarfi.

Aðferðum nýsköpunar var beitt til að ná í hugmyndir frá hugmyndaríkum framtíðarnotendum félagsstarfs sem ræddu um það hvernig eldri borgara Reykjavíkur geti notið sín á efri árum.

Nýjar áherslur komu fram og áhugi var meðal þátttakenda á því að auka sjálfboðaliðastarf í tengslum við starfssemi borgarinnar. Skapa þarf aðstöðu fyrir alla til að sinna sínum hugðarefnum og hópurinn lagði m.a. til að áhersla væru lögð á umræðuhópa um stjórnmál, náttúruvernd og umhverfismál, tengsl við alþjóðasamfélagið, gróðurhús og margt fleira. Í máli þátttakenda kom einnig fram mikilvægi þess að fólk á besta aldri hugi að því að koma  sér upp áhugamálum til þess að hafa nóg fyrir stafni þegar loks gefst tími til að leggja rækt við þau. Allir þyrftu að geta valið úr fjölbreyttu félagsstarfi eftir aldri, áhugamálum og getu.

Ótal hugmyndir og tækifæri urðu til í hugmyndasmiðjunni og næstu skref verður úrvinnsla úr þeim efniviði sem kom út úr smiðjunni. Niðurstöður smiðjunnar verða nýttar í tengslum við fyrirhugaða heildarstefnumótun um félagsstarf og félagsmiðstöðvar velferðarsviðs en endanlegar niðurstöður verða kynntar á haustdögum.