Framkvæmdir hefjast við Hátæknisetur í Vatnsmýri

Umhverfi Skipulagsmál

""

Fyrsta skóflustungurnar voru teknar að nýju Hátæknisetri í Vatnsmýri í dag sem mun hýsa alþjóðlegar skrifstofur Alvogen og þróunarsetur líftæknilyfja. 400 ársverk skapast á framkvæmdatímanum og 200 ný framtíðarstörf verða til hjá Alvogen í hátækniiðnaði. 

Framkvæmdir við Hátæknisetur Alvogen í Vatnsmýrinni hófust í dag. Róbert Wessman forstjóri Alvogen, Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands og Dagur B. Eggertsson formaður borgarráðs tóku fyrstu skóflustungurnar. Hátæknisetrið mun hýsa alþjóðlegar skrifstofur Alvogen og þróunarsetur líftæknilyfja. Búist er við að árlegar tekjur af starfsemi Alvogen á Íslandi verði um 65 milljarðar króna þegar fyrstu líftæknilyf félagsins fara á markað á árinu 2019 og um 200 ný framtíðarstörf verða til hjá félaginu. Starfsemi Alvogen verður samofin háskólasam-félaginu í Vatnsmýri og nær þannig að styðja við og nýta sér rannsóknir og framhaldsmenntun m.a. á sviði lífvísinda, lyfjaþróunar, viðskiptaþróunar og verkfræði.

„Háskóli Íslands hefur í rúm 100 ár lagt af mörkum til uppbyggingar atvinnulífs á Íslandi, en með byggingu Hátækniseturs Alvogen á lóð Vísindagarða hefst nýr kafli.  Í Vísindagörðum munu fyrirtæki starfa í náinni samvinnu við fræðasvið og deildir skólans. Starfsmenn háskólans og nemendur hans munu vinna að rannsóknum með starfsfólki fyrirtækjanna og starfsmenn fyrirtækjanna munu koma að kennslu og leiðbeiningu í Háskóla Íslands. Þannig munu skólinn og fyrirtækin vinna saman að verðmætasköpun sem ætti að leiða til bættra lífskjara í landinu.“ segir Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands.

Hátæknisetur Alvogen verður reist við Sæmundargötu 15-19, innan Vísindagarða Háskóla Íslands og verður um ellefu þúsund fermetrar að stærð. Heildarfjárfesting Alvogen vegna verkefnisins er áætluð um 25 milljarðar króna, þar með talið uppbygging á aðstöðu á Íslandi fyrir um 8 milljarða króna (fullbúið hús). Um 400 ársverk munu skapast á rúmlega tveggja ára framkvæmdatíma en auk þess er búist við að 200 ný stöðugildi muni skapast til framtíðar hjá Alvogen á Íslandi á næstu árum. Erlendir lykilstjórnendur hafa verið ráðnir til að leiða markaðssókn Hátækniseturs Alvogen á alþjóðlegum mörkuðum og yfirgnæfandi meirihluti af nýjum starfsmönnum verða háskólamenntaðir Íslendingar. Íslenskir aðalverktakar hafa verið valdir til að sjá um jarðvinnu og samið verður við stýriverktaka verkefnisins á næstu vikum.

„Alþjóðlegur lyfjamarkaður er á tímamótum um þessar mundir. Lífæknilyf eru í miklum vexti og á næstu þremur árum verða átta af tíu söluhæstu lyfjum heims líftæknilyf. Á sama tíma hefur hægt á nýskráningum hefðbundinna samheitalyfja. Okkar markmið er að Ísland verði leiðandi í þróun og framleiðslu líftæknilyfja á næstu árum og íslenskt hugvit og markaðsnet okkar í yfir 30 löndum verði nýtt til að skapa Alvogen sérstöðu á þessu sviði.

Fá samheitalyfjafyrirtæki eru komin eins langt og Alvogen í þróun þessara söluhæstu lyfja og við stefnum að því að vera í hópi fyrstu fyrirtækja á markað þegar einkaleyfi þeirra rennur út. Við sjáum því mikil tækifæri fyrir uppbyggingu Alvogen á Íslandi og vonandi verður okkar fjárfesting innblástur fyrir önnur fyrirtæki að hefja hér starfsemi eða efla enn frekar núverandi starfsemi sína.“ segir Róbert Wessman, forstjóri Alvogen.

Í Hátæknisetri Alvogen er fyrirhugað að þróa og framleiða samheitalyfjaútgáfu líftæknilyfja sem eru nú þegar á markaði og markaðssetja þau þegar einkaleyfi þeirra renna út. Lyfin eru öll í hópi söluhæstu lyfja í heiminum í dag og seljast fyrir tugi milljarða bandaríkjadala á ári. Umrædd lyf sem verða þróuð og framleidd hjá Alvogen eru árangursrík við ákveðnum alvarlegum sjúkdómum, m.a. krabbameini og gigtarsjúkdómum. Líftæknilyf Alvogen verða seld á öllum stærstu lyfjamörkuðum heims í gegnum sölunet félagsins og búast má við að með tilkomu samheitalyfjanna lækki söluverð þessarra lyfja umtalsvert. Fyrstu lyf Alvogen koma á markað árið 2019 en starfsemi Hátæknisetursins mun hefjast í ársbyrjun 2016. Alvogen hóf sölu líftæknilyfja á mörkuðum í Mið- og Austur-Evrópu fyrir um tveimur árum í samstarfi við stórt alþjóðlegt líftæknifyrirtæki. Fyrir rúmlega ári  hóf fyrirtækið sína eigin þróun í samstarfi við svissneskt þróunarfyrirtæki og mun sú starfsemi flytjast til Íslands þegar Hátæknisetrið verður formlega tekið í notkun.

„Þetta er tímamótamál og gríðarlegt fagnaðarefni fyrir Reykjavík. Framkvæmdin sem fer af stað í dag mun skapa hundruð starfa á framkvæmdatímanum og 200 framtíðarstörf í hátækniiðnaði. Það eru góðar fréttir fyrir höfuðborgina og landið allt. Þetta þýðir líka að Reykjavík hefur orðið ofan á í alþjóðlegri samkeppni um að fá þessa mikilvægu starfsemi og fjárfestingu til sín. Það sýnir hvað hægt er að gera í nánu samstarfi borgarinnar við háskólana.

Hér um að ræða mikla innspýtingu í þekkingarhagkerfi Reykjavíkur og varla þarf að taka fram að verkefnið er í fullu samræmi við nýja atvinnustefnu borgarinnar. Síðast en ekki síst er ánægjulegt að bygging Alvogen er um leið upphafið að uppbyggingu Vísindagarða HÍ í Vatnsmýri. Eftir þeim höfum við beðið með eftirvæntingu,“ segir Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, sem hafði frumkvæði að viðræðum Reykjavíkurborgar við Alvogen um að velja sér stað í Reykjavík.

Starfsemi Alvogen nær til 34 landa og hjá félaginu starfa um 1.900 starfsmenn. Helstu markaðir Alvogen utan Bandaríkjanna eru Ungverjaland, Suður-Kórea, Rúmenía, Búlgaría, Serbía, Rússland, Kína, Taíland og Taivan. Rekstrartekjur Alvogen koma að stærstum hluta frá félögum með langa rekstrarsögu og má þar nefna Norwich Pharmaceuticals í Bandaríkjunum (125 ár), Kunwha í Suður-Kóreu (55 ár) og Labormed í Rúmeníu (22 ár). Aðrar tekjur koma frá starfsemi Alvogen sem byggð hefur verið frá grunni á fjölmörgum mörkuðum félagsins.

Á Íslandi er Alvogen með 45 starfsmenn  sem vinna að ýmsum verkefnum fyrir samstæðuna, m.a. á sviði fjármála, gæðamála, markaðsmála, lögfræði, tölvumála og viðskiptaþróunar vegna líftæknilyfja. Arctica Finance var ráðgjafi Alvogen við fjármögnun verkefnisins.