Framkvæmdir hafnar við nýjan leikskóla við Kleppsveg

""

Framkvæmdir við nýjan leikskóla við Kleppsveg 150-152 eru hafnar. Ásýnd svæðisins mun gjörbreytast en þarna verður opnaður sex deilda leikskóli sem uppfyllir allar nútímakröfur og verður prýði að á þessum góða stað í hverfinu.

Húsin tvö sem fyrir eru verða nýtt eins og kostur er og verður byggð ný tengibygging á milli þeirra. Byggingin verður vottuð samkvæmt alþjóðlega sjálfbærnivottunarkerfinu BREEAM. Samkvæmt því er áhersla meðal annars lögð á  heilsu og vellíðan notenda byggingarinnar og á að draga úr umhverfisáhrifum hennar allt frá hönnun, byggingu og hvað varðar rekstur.

Hvað verður gert?

  • Gerðar verða endurbætur á lóð og húsnæði sem og aðkomu að skólanum sem verður í höndum Þarfaþings ehf.
  • Útbúið verður opið leiksvæði sem verður afgirt til notkunar fyrir leikskólabörn og íbúa hverfisins utan opnunartíma.
  • Endurnýja á alla göngustíga auk þess að leggja nýja til að tryggja gott aðgengi fyrir leikskólabörn, forráðamenn og íbúa að svæðinu.
  • Framkvæmd hefur verið umferðaröryggisrýni til að tryggja öryggi og aðgengi gangandi, hjólandi og akandi að svæðinu.  
  • Til að tryggja öryggi vegfarenda, reynist nauðsynlegt að loka gangstígum í kringum framkvæmdasvæðið en vísað verður á hjáleiðir.

Hvenær?

Fyrsti áfangi verður kláraður fyrir sumarið 2022, annar áfangi um sumarið og lokaáfanginn verður tilbúinn fyrir haustið.

Hverfisgarður og kerrugeymsla

Til viðbótar er leikskólalóðin hugsuð sem hverfisgarður fyrir íbúana og nýtist því vel sem grænn og skemmtilegur samkomustaður fyrir fjölskyldur utan opnunartíma leikskólans.

Gagnleg viðbót sem margir munu eflaust fagna er að í kjallara hússins verður geymsla sem nýtist sem kerru- og hjólageymsla fyrir starfsfólk og fjölskyldur leikskólabarna og verður aðkoma í gegnum ramp á hlið hússins.

Hönnun endurgerðarinnar var í höndum Arkís og sá Kanon um hönnun á leikskólalóðinni.

Arkitektúr og hönnun

Mannvirkin sem fyrir voru eru nýtt eins og hægt er og heldur andi húsanna sér að einhverju leyti. Heildstætt og náttúrulegt útlit einkennir byggingarnar. Klæðning úr lerki kemur utan á húsið sem virkar jafnframt eins og sólskermur til að minnka sólarálag á húsið. Torf verður á þakinu. Geymsluskúr á lóð verður klæddur með sama hætti. Hiti verður í gólfum.

Innandyra eru lykilorðin ljósir litir og náttúruleg efni. Mikið verður um jarðtóna og náttúrulegan við, vel er hugað að hljóðvist en hljóðísog verður byggt inn í innréttingar. Lögð er áhersla á mjúka og stillanlega birtu.

Hvað lóðina varðar er verið að gera eina heildstæða lóð úr því sem áður voru þrjár lóðir. Útgangspunkturinn er að reyna eftir fremsta megni að varðveita og halda í þau tré sem fyrir eru á svæðinu. Lóðin verður að sjálfsögðu afgirt eins og venja er með leikskólalóðir en eins og áður segir opin öllum utan starfstíma leikskólans. Nyrsti hlutinn er ekki síst hugsaður með hverfisgarðinn í huga en þar verður hóll, gróður og rólegt umhverfi með setbekkjum á meðan áherslan næst húsinu er á leiktæki.

Hægt er að fylgjast með framvindu verkefnisins í Framkvæmdasjá Reykjavíkurborgar

Tengd frétt

Nýtt leikskólahúsnæði við Kleppsveg verður hluti af Brákarborg