Öll starfsemi Kvistaborgar færist tímabundið í húsnæði Safamýrarskóla frá og með þriðjudeginum 21. september. Hafist verður handa við undirbúning framkvæmda vegna rakaskemmda og uppfærslu á húsnæði leikskólans svo að það henti betur starfsemi hans í dag. Vonast er til að skólastarfið færist aftur í Fossvogsdalinn fyrir jól.
Flutningur starfseminnar og fyrirhugaðar framkvæmdir voru kynntar fyrir starfsfólki og foreldrum á fundum í kvöld. Þar kom fram að verkfræðistofan Efla mælir með að farið verið í gagngerar endurbætur á elsta hluta skólans sem byggður var 1972 og hentar illa starfi nútíma leikskóla. Ákveðið var að flytja alla starfsemi skólans tímabundið í Safamýri 5 sem áður var Safamýrarskóli til að hægt verði að fara í undirbúning framkvæmda á meðan unnið er að hönnun og skipulagningu verksins.
Í sumar og haust hefur verið unnið að því að undirbúa húsnæði í vestur hluta Safamýrarskóla svo hægt sé að taka við allri starfsemi Kvistaborgar. Þar var áður grunnskóli og góð aðstaða fyrir börn í leik og námi, til að mynda er þar stór leikfimisalur sem mun nýtast starfinu vel næstu mánuði. Framundan eru framkvæmdir við austurhluta Safamýrarskóla en þar verður nýr leikskóli opnaður á næsta ári.
Haldinn verður starfsdagur á Kvistaborg mánudaginn 20. september til að auðvelda flutning á leiktækjum og öðrum munum og mun leikskólinn opna á ný í Safamýrarskóla klukkan 10 þriðjudaginn 21. september. Stefnt er að því að starf leikskólans flytji aftur í Fossvog fyrir jól.