Framboðsfrestur til borgarstjórnarkosninga 2018 | Reykjavíkurborg

Framboðsfrestur til borgarstjórnarkosninga 2018

mánudagur, 30. apríl 2018

Framboðsfrestur til borgarstjórnarkosninga 26. maí 2018 rennur út 5. maí klukkan 12:00. Yfirkjörstjórn Reykjavíkur tekur á móti framboðslistum föstudaginn 4. maí milli kl. 13-14 og laugardaginn 5. maí kl. 10-12 í fundarherbergi borgarráðs, Ráðhúsi Reykjavíkur.

  • Talning atkvæða í borgarstjórnarsalnum
    Talning atkvæða í borgarstjórnarsalnum
  • Á kjörstað í borgarstjórnarkosningunum 2014
    Á kjörstað í borgarstjórnarkosningunum 2014

Á framboðslista skulu vera nöfn 23 frambjóðenda að lágmarki og 46 að hámarki. Hverjum framboðslista skal fylgja skrifleg yfirlýsing allra þeirra sem á listanum eru um að þau hafi leyft að setja nöfn sín á listann. Framboðslista skal einnig fylgja skrifleg yfirlýsing um stuðning við listann frá kjósendum í kjördæminu á tölusettum blaðsíðum. Tilgreina skal fullt nafn meðmælanda, kennitölu hans og lögheimili. Fjöldi meðmælenda skal vera 160 að lágmarki og 320 að hámarki. Enginn kjósandi getur mælt með fleiri en einum framboðslista. Komi það fyrir er nafn kjós- andans fellt út í báðum/öllum tilvikum. 
Gæta skal þess um öll framboð að tilgreina skýrlega nafn frambjóðanda, kennitölu hans, stöðu eða starfsheiti og lögheimili til þess að enginn vafi geti leikið á því hverjir eru í kjöri. Mælst er til að framboðslistum verði einnig skilað á rafrænu formi og meðmælendalistar skráðir rafrænt á þar til gert vefsvæði á www.island.is.

Loks skal fylgja framboðslista skrifleg og undirrituð tilkynning frá öllum frambjóðendum listans um hverjir tveir menn séu umboðsmenn listans. Allar framangreindar yfirlýsingar skulu ritaðar eigin hendi og frumrit afhent yfirkjörstjórn.Óska má eftir eyðublöðum fyrir allt framangreint með tölvupósti á kosningar@reykjavik.is.

Að öðru leyti er vísað til ákvæða laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 með síðari breytingum.

Meðan kosning fer fram, laugardaginn 26. maí nk., verður aðsetur yfirkjörstjórnar Reykjavíkur í Ráðhúsi  Reykjavíkur. Að kjörfundi loknum fer talning atkvæða fram í Laugardalshöll. Talning er öllum opin meðan  húsrúm leyfir.

Nánari upplýsingar má nálgast með því að hafa samband við skrifstofu  borgarstjórnar í s. 411-4700 eða með tölvupósti á kosningar@reykjavik.is.